Tónlist

Þegar Ed Sheeran var síðast á landinu: Steikarsamloka, Bláa Lónið og bráðinn Timberland skór

Andri Eysteinsson skrifar
Ed Sheeran á tónleikum í Madríd í júní.
Ed Sheeran á tónleikum í Madríd í júní. Getty/Ricardo Rubio

Enski tónlistarmaðurinn Ed Sheeran mun eftir örfáa daga halda tvenna tónleika á Laugardalsvelli.

Mikið hefur verið fjallað um væntanlega íslandsheimsókn söngvarans undanfarið en langar raðir hafa myndast fyrir utan Ed Sheeran búðina í Kringlunni og honum fylgir mikið hafurtask.

Greint var frá því á laugardaginn að Sheeran hafi flutt með sér 55 gáma fulla af græjum fyrir tónleikana sem vógu meira en 1.500 tonn. Til samanburðar flutti Justin Timberlake tífalt færri gáma með sér á tónleikana sem hann hélt árið 2014 og flutti Justin Bieber fimmfalt færri gáma með sér árið 2016.

Sheeran hefur þó áður komið til landsins en árið 2016 fagnaði hann 25 ára afmæli sínu hérlendis en Sheeran á afmæli 17. Febrúar.

Sjá einnig: Ed Sheeran fagnar 25 ára afmælinu á Íslandi

Söngvarinn gæddi sér á steikarsamloku og afmælisköku á veitingastaðnum Gamla Fjósinu sem er staðsett að Hvassafelli undir Eyjafjöllum. Þá bárust einnig fregnir af því að tónlistarmaðurinn hafi lagt leið sína í Bláa lónið.

Heita vatnið í Bláa Lóninu var þó ekki eina heita vatnið sem Sheeran dýfði tánum ofan í á meðan á íslandsheimsókn hans stóð en í viðtali við BBC Radio 1 ári síðar greindi Sheeran frá óheppilegu atviki sem henti hann hér á landi.

„Ég setti fótinn í sjóðandi hver á Íslandi og húðin á fætinum á mér bráðnaði,“ sagði Sheeran sem var þá spurður að því hvað hver væri.

„Það er sjóðandi pollur af vatni. Ég held að hann sé um 200 gráður heitur. Ég var í Timberland-skóm sem eru ekki lengur til,“ sagði Sheeran og sagði skóinn hafa bráðnað.
Sjá einnig: Ed Sheeran steig í heitan hver á Íslandi og brenndi sig illa

Ed virðist hins vegar ekki erfa óhappið við land og þjóð því hann hefur eftir atvikið komið fram í klæddur íslensku landsliðstreyjuna. Það gerði hann á viðburði Elton John í Windsor á Englandi á meðan að Heimsmeistaramótið í knattspyrnu karla fór fram í Rússlandi síðasta sumar.

Sjá einnig: Ed Sheeran tók lagið í íslensku landsliðstreyjunni

Getty/ David Bennett

Þá er önnur íslandstenging Sheeran heldur óheppilegri en í janúar 2018 varð Morgunblaðinu á og birti mynd af söngvaranum með minningargrein í dagblaði sínu. Sheeran var þó ekki látinn og mun heldur betur stíga á svið og skemmta áhorfendum á Laugardalsvelli dagana 10. og 11. ágúst næstkomandi.

Söngvarinn frá Halifax verður þó ekki einn á ferð því íslenska söngkona Glowie mun ásamt hinni sænsku Zöru Larsson og hinum enska James Bay hita upp fyrir Ed Sheeran á Laugardalsvelli.

Sara Pétursdóttir eða Glowie mun hita upp fyrir Sheeran ásamt James Bay og Zöru Larsson Vísir/Getty


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.