Innlent

Mjólkin í mestum metum hjá kjósendum Miðflokks og Framsóknar

Eiður Þór Árnason skrifar
Svarendur í yngsta aldurshópnum reyndust líklegri til að segjast neyta reglulega lífrænna matvæla eða grænkerafæðis.
Svarendur í yngsta aldurshópnum reyndust líklegri til að segjast neyta reglulega lífrænna matvæla eða grænkerafæðis. Vísir/Getty
Stuðningsfólk Framsóknar og Miðflokks er líklegast til að neyta mjólkurvara á hverjum degi, ef marka má nýja könnun MMR á daglegu mataræði landsmanna. Í könnunni sögðust 72% stuðningsmanna flokkanna tveggja neyta mjólkurvara oft eða alltaf sem hluta af sínu daglega mataræði.

73% stuðningsfólks Framsóknar sagðist sömuleiðis oft eða alltaf neyta rauðs kjöts sem hluta af daglegu matarræði, mest allra stjórnmálaflokka.

Á hinn boginn reyndist stuðningsfólk Vinstri grænna og Pírata líklegast til að segjast oft eða alltaf neyta grænmetisfæðis og lífrænna matvæla, eða 47% stuðningsfólks Vinstri grænna og 44% Pírata. Stuðningsfólk Vinstri grænna og Samfylkingar var líklegast til að segja veganfæði oft eða alltaf vera hluta af sínu daglega mataræði.

Stuðningsfólk Sjálfstæðisflokksins (66%) og Framsóknar (63%) var líklegast til að segja hvítt kjöt oft eða alltaf vera hluta af mataræði sínu.MMR
Þvert á flokkshollustu sagðist yfir helmingur þátttakenda neyta mjólkurvara og hvíts kjöts oft eða alltaf sem hluta af daglegu mataræði. Svarendur af landsbyggðinni reyndust líklegri en íbúar á höfuðborgarsvæðinu til að segja mjólkurvörur og rautt kjöt oft eða alltaf vera hluta af sínu daglega mataræði.

Karlar reyndust þá líklegri en konur til að segjast borða rautt kjöt oft eða alltaf, en konur líklegri til að segjast neyta grænmetisfæðis, umhverfisvænna matvæla, lífrænna matvæla eða veganfæðis.

Könnun MMR var framkvæmd daganna 23. til 29. maí. Heildarfjöldi svarenda var 932 einstaklingar, 18 ára og eldri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×