Erlent

Hundruð mótmælenda handtekin í Moskvu

Kjartan Kjartansson skrifar
Lögreglumenn í óeirðabúningi draga á burt stúlku úr hópi mótmælenda.
Lögreglumenn í óeirðabúningi draga á burt stúlku úr hópi mótmælenda. AP/Pavel Golovkin
Lögreglan í Moskvu handtók nokkur hundruð mótmælendur sem komu saman í Moskvu til að krefjast refsingar fyrir lögreglumenn sem eru taldir hafa reynt að koma sök á rannsóknarblaðamann í síðustu viku. Alexei Navalní, leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Rússlandi, er á meðal þeirra sem voru handteknir.

Mál blaðamannsins Ívans Golunov hefur vakið mikla reiði í Rússland. Hann var handtekinn í síðustu viku og sakaður um umfangsmikla fíkniefnasölu. Yfirvöld létu hann lausan í gær og lofuðu rannsókn á hvernig kom til að hann var handtekinn.

Á mótmælunum í Moskvu í dag átti upphaflega að krefjast lausnar Golunov. Eftir að honum var sleppt beindist reiði mótmælenda að lögreglunni. Til átaka kom á milli óeirðarlögreglu og mótmælenda. Nokkrir mótmælendur voru handteknir á þeim forsendum að leyfi hafi ekki verið veitt fyrir mótmælunum. Alvanalegt er að leiðtogar stjórnarandstöðunnar í Rússlandi séu teknir höndum af þeim sökum.

Yfirvöld segja að um tvö hundruð manns hafi verið handtekin en réttindasamtök telja fjöldann nær fjögur hundruðum, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Rússneskir fjölmiðlar telja að um 2.500 manns hafi tekið þátt í mótmælunum en yfirvöld segja að fjöldinn hafi verið innan við helmingur þess.

Þá voru nokkrir blaðamenn sem voru við störf á mótmælunum handteknir, þar á meðal starfsmaður þýska blaðsins Der Spiegel. Fjölmiðlafrelsi er afar bágborið í Rússlandi. Landið er þannig í 83 sæti af hundrað á lista bandarísku félagasamtakanna Freedom House yfir fjölmiðlafrelsi.

Alexei Navalní hefur ítrekað verið handtekinn á mótmælum í Rússlandi. Hann er leiðtogi stjórnarandstöðunnar en var bannað að bjóða sig fram gegn Vladímír Pútín til forseta í fyrra.AP/Pavel Golovkin
Ungur mótmælandi gerir friðarmerki með fingrunum á meðan lögreglumenn leiða hann á brott.AP/Pavel Golovkin

Tengdar fréttir

Rússneska blaðamanninum sleppt úr fangelsi

Innanríkisráðherra Rússlands segir að rannsókn verði hafin á því hvernig lögreglumenn reyndu að koma sök á rannsóknarblaðamanninn Ívan Golunov.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×