Tónlist

Iðin við að skapa verkefni

Kolbrún Bergþórsdóttir skrifar
„Þetta er mikill heiður,“ segir Ingibjörg um viðurkenninguna.
„Þetta er mikill heiður,“ segir Ingibjörg um viðurkenninguna. fbl/anton brink
Ingibjörg Elsa Turchi, bassaleikari og tónsmiður, hlaut síðastliðinn sunnudag viðurkenningu úr Minningarsjóði Kristjáns Eldjárns gítarleikara.

Minningarsjóðurinn var stofnaður af ættingjum, vinum og samstarfsmönnum eftir að hann lést árið 2002 tæplega þrítugur að aldri. Minningarsjóðnum er ætlað að verðlauna efnilega tónlistarmenn og afreksfólk í tónlist.

„Þetta kom mér á óvart og er mikill heiður. Það er frábært að hafa orðið fyrir valinu og gerir mér kleift að vinna markvisst að mínum næstu verkefnum,“ segir Ingibjörg sem er þrítug og hefur undanfarin ár verið gríðarlega afkastamikil í íslensku tónlistarlífi.

Verkefnin sem hún hefur tekið þátt í eru fjölbreytt og mætti þar helst nefna samstarf við Stuðmenn, Bubba Morthens, Teit Magnússon og Soffíu Björgu.

Hún var meðlimur í hljómsveitinni sem flutti tónlistina í Ronju ræningjadóttur í Þjóðleikhúsinu og hefur komið fram með hljómsveit sem flytur hennar eigið efni og tekið þátt í myndlistarsýningum og ýmsum grasrótartengdum verkefnum.

Heillaðist af bassanum

„Þetta byrjaði allt saman þegar ég var í hljómsveitinni Rökkurró í MR og hefur þróast síðan þá. Ég hef verið dugleg að stökkva á tækifæri sem hafa boðist og spilað með öðrum tónlistarmönnum allt frá upphafi og margt hefur einnig komið upp í hendurnar á mér. Ég hef líka verið iðin við að skapa mér ýmis verkefni sjálf með frábæru tónlistarfólki,“ segir Ingibjörg.

Hún lærði sem barn og unglingur á flautu, harmóniku, gítar og píanó en kynntist síðan bassanum og lærði síðar í FÍH.

„Mig langaði til að prófa bassann og heillaðist af honum, mér fannst hann smellpassa við mig. Þetta er hljóðfæri með marga möguleika og það er hægt að gera svo mikið við það.“

Ingibjörg sinnir kennslu og umsjón í samtökunum Stelpur rokka! og hefur verið frá stofnun þess hér á landi árið 2012.

„Tilgangurinn var að reyna meðal annars að jafna kynjahallann í tónlistarheiminum. Þar hafa fyrirmyndirnar ekki oft verið sýnilegar og þá finnst stelpum eins og þær eigi ekki erindi og geti ekki fengið hljómgrunn. Það eru sjö ár síðan Stelpur rokka! varð til og starfið hefur vaxið mjög mikið á þessum árum sem er frábært.

Stefnir á plötu

Árið 2017 gaf Ingibjörg út plötuna Wood/work sem kom út á vegum SMIT-records. Einnig er hún að læra tónsmíðar í Listaháskóla Íslands.

„Ég stefni á að klára námið næsta vor og er líka í rytmísku kennaranámi samhliða, svo ætla ég að halda áfram að þróa efnið mitt, gera plötu og halda tónleika.“

Ingibjörg er með BA-próf í latínu og forngrísku frá Háskóla Íslands.

„Ég var á fornmálabraut í MR og þar sem tungumál liggja vel fyrir mér og mér þykja þau skemmtileg ákvað ég að læra meira. Eftir námið kenndi ég grísku í MR og hef fengist við þýðingar. Gríska heimspekin hefur heillað mig og svo hef ég verið að stúdera forngríska tónlist. Nú er það samt eigin tónlist og tónlistarflutningur sem á hug minn allan.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×