Erlent

Segir Trump ekki gera betur en Alexander mikli og Gengis Kan

Kjartan Kjartansson skrifar
Zarif, utanríkisráðherra Írans.
Zarif, utanríkisráðherra Írans. Vísir/EPA
Utanríkisráðherra Írans stingur upp á því að Donald Trump Bandaríkjaforseti komi fram af virðingu eftir að hann tísti um gereyðingu landsins í gær. Ráðherrann segir að Trump eigi ekki eftir að verða meira ágengt en öðrum innrásarmönnum eins og Alexander mikla og Gengis Kan.

Vaxandi spenna hefur einkennt samband Bandaríkjanna og Íran undanfarin misseri, ekki síst eftir að Trump Bandaríkjaforseti sagði Bandaríkin frá kjarnorkusamningi heimsveldanna við Íran. Trump sendi nýlega fleiri herskip og flugvélar í Persaflóa og vísuðu bandarísk stjórnvöld til óskilgreindrar íranskrar ógnar.

Nú um helgina tísti Trump svo skyndilega hótun í garð Írana þess efnis að þeir skyldu hætta að ógna Bandaríkjunum.

„Ef Íran vill berjast verða það opinber endalok Írans. Hótið aldrei Bandaríkjunum aftur!“ tísti Bandaríkjaforseti í gær.

Mohammad Javad Zarif, utanríkisráðherra Írans, þótti lítið til ummæla Trump koma og sagði það sem hann kallaði „B-liðið“ egna forsetann út í stríð. Með „B-liðinu“ virðist Zarif eiga við þjóðaröryggisráðgjafa Trump, John Bolton, Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, og Mohammad bin Salman, krónprins Sádi-Arabíu.

„Donald Trump vonast til þess að ná því sem Alexander [mikla], Gengis [Kan] og öðrum innrásarmönnum tókst ekki. Íranir hafa staðið uppréttir í árþúsundir á meðan allir innrásarmenn hafa horfið. Efnahagsleg hryðjuverk og þjóðarmorðsögranir munu ekki binda enda á Íran,“ tísti Zarif

„Prófaðu virðingu, hún virkar!“ sagði utanríkisráðherrann ennfremur.

Þess ber þó að geta að bæði Alexander mikli og Gengis Kan lögðu undir sig Persíu, forvera Írans, þó að veldi þeirra hafi síðar liðast í sundur.


Tengdar fréttir

Virtist hóta því að gjöreyðileggja Íran

Bandaríkjaforseti sendi Írönum skilaboð í gegnum Twitter þar sem hann virðist hóta því að gjöreyðileggja ríkið, hætti það ekki að ögra Bandaríkjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×