Erlent

Á­tján ára látnir svara spurninga­lista um hæfni þeirra til her­þjónustu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Ungir nýliðar við æfingar.
Ungir nýliðar við æfingar. Getty/Federico Gambarini

Stjórnarflokkarnir í Þýskalandi hafa komið sér saman um aðgerðir sem miða að því að efla herafla landsins. Allir 18 ára karlar verða nú látnir svara spurningalista um getu þeirra til að þjóna í hernum og þá verða þeir, frá árinu 2027, látnir gangast undir heilbrigðisskoðun.

Stjórnvöld í Þýskalandi hafa sett sér það markmið að eignast stærsta her Evrópu. Armin Papperger, yfirmaður Rheinmetall, stærsta vopnaframleiðanda Þýskalands, segir í samtali við BBC að það muni mögulega nást á næstu fimm árum.

Hershöfðinginn Carsten Breuer, yfirmaður varnarmála, sagði fyrr á þessu ári að Atlantshafsbandalagið þyrfti að undirbúa sig undir mögulega árás af hálfu Rússa á næstu árum.

Papperger sagðist í samtalinu við BBC ekki hafa neina kristalskúlu til að spá í hvað þetta varðaði en sagði að Þjóðverjar þyrftu að stefna að því að vera við öllu viðbúnir fyrir 2030.

Þýski herinn telur 182 þúsund hermenn en miðað er að því að fjölga hermönnum um 20 þúsund á næsta ári og í allt að 260 þúsund á næstu tíu árum. Þá er gert ráð fyrir að varaliðar verði um 200 þúsund talsins.

Áðurnefndir spurningarlistar verða sendir á bæði 18 ára karla og konur en aðeins karlarnir verða skyldaðir til að svara. Þá verða allir 18 ára karlar skikkaðir til að ganga undir heilbrigðispróf árið 2027, til að meta líkamlega getu þeirra.

Ef stríð brýst út verða spurningalistarnir og heilsuprófin notuð til viðmiðunar.

Áætlanir stjórnvalda eru umdeildar en samkvæmt nýlegri skoðanakönnun eru 63 prósent einstaklinga á aldrinum 18 til 29 ára á móti herskyldu. Sumir vilja þjóna landinu sínu en aðrir segjast hvorki hafa áhuga á að láta skjóta á sig né skjóta aðra.

Varnarmálaráðherrann Boris Pistorius hefur freistað þess að róa fólk og bent á að þrátt fyrir að stjórnvöld séu að huga að viðbúnaði sé engin ástæða til að hafa áhyggjur eða óttast. Forvarnir og hernaðaruppbygging séu til þess gerðar að draga úr líkunum á átökum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×