Lífið

Eurovision-dómnefnd Hvíta-Rússlands vikið úr keppni

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
ZENA flytur framlag Hvíta-Rússlands í Eurovision þetta árið.
ZENA flytur framlag Hvíta-Rússlands í Eurovision þetta árið. Guy Prives/Getty
Samtök evrópskra sjónvarpsstöðva, EBU, sem stendur að Eurovision, hefur staðfest að dómnefnd Hvíta-Rússlands hefur verið vísað úr keppni.

Ástæða brottrekstrarins er að meðlimir dómnefndarinnar greindu frá atkvæðum sínum í fyrra undanúrslitakvöldi keppninnar á þriðjudag. Það brýtur í bága við reglur Eurovision, en þær kveða á um að úrslit undanúrslitakvöldanna megi ekki vera ljós fyrr en að úrslitakvöldinu loknu.

Í samtali við miðilinn Eurovox staðfesti fjölmiðlateymi Eurovision að dómnefnd Hvíta-Rússlands hafi verið vísað úr keppni.

„Hvítrússneska dómnefndin varð í viðtali við fjölmiðla uppvís að því að brjóta reglur Eurovision-söngvakeppninnar. Svo að reglum keppninnar sé fylgt hefur EBU gripið til þess ráðs að vísa dómnefnd Hvíta-Rússlands úr keppni fyrir úrslitakvöldið.“

Þá kemur fram að sökum brottrekstursins verði vægi atkvæða símakosningarinnar í Hvíta-Rússlandi aukið og munu atkvæði hvítrússneskra áhorfenda alfarið ráða því hvert stig Hvíta-Rússlands fara. Venjulega hefur ákvörðun dómnefndar 50% vægi á móti símakosningu.

Athygli blaðamanns vakti að einn dómnefndarmeðlima, Angelina Mikulskaya, sagði í viðtali við miðilinn tut.by að hún hafi ekki hrifist af íslenska atriðinu og hafi því ekki kosið Ísland upp úr riðlinum á þriðjudag.

Hvítrússneska lagið komst líkt og íslenska framlagið upp úr undanúrslitakvöldinu á þriðjudag. Framlag Hvíta-Rússlands er lagið Like It og er sungið af söngkonunni ZENU. Hún er 19. á svið í kvöld.

Hatari verður atriði númer 17 á úrslitakvöldinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×