Sport

Getur Jacare tryggt sér titilbardaga í kvöld?

Pétur Marinó Jónsson skrifar
Jacare og Hermansson í vigtuninni í gær.
Jacare og Hermansson í vigtuninni í gær. Vísir/Getty
UFC er með fínasta bardagakvöld í Flórída í kvöld þar sem þeir Ronaldo ‘Jacare’ Souza og Jack Hermansson mætast í aðalbardaga kvöldsins. Með sigri getur Jacare fengið titilbardagann sem hann hefur svo lengi beðið eftir.

Jacare er orðinn 39 ára gamall og hefur verið í UFC í sex ár en ekki enn fengið titilbardaga. Jacare hefur oft verið nálægt því en tapað á lykil augnablikum. Þrátt fyrir að vera ekki á neinni rosalegri sigurgöngu hefur honum verið lofað að fá titilbardaga vinni hann í kvöld.

Jacare hefur unnið fjóra af síðustu sex bardögum sínum en síðast sigraði hann Chris Weidman með rothöggi í 3. lotu. Það var hans besti sigur á ferlinum og er Jacare enn að taka framförum sem bardagamaður.

Upphaflega átti Jacare að mæta Yoel Romero en sá kúbverski dró sig úr bardaganum vegna veikinda. Jack Hermansson kemur því hans stað og var Jacare tilbúinn að mæta honum að því gefnu að hann fengi titilbardaga með sigri.

Hermansson fær að sama skapi tækifæri lífs síns enda hans stærsti bardagi á ferlinum til þessa. Hermansson stekkur inn með rúmlega þriggja vikna fyrirvara eftir glæstan sigur á David Branch í lok mars. Ef Hermansson sigrar Jacare mun enginn efast um hann lengur og getur hann stimplað sig inn sem einn af þeim bestu í millivigtinni.

Það er því mikið undir fyrir báða í kvöld í aðalbardaganum. Á kvöldinu eru fleiri áhugaverðir bardagar eins og fyrsti bardagi Alex Oliveira eftir tapið gegn Gunnari Nelson og 2. bardagi Greg Hardy í UFC. Bardagakvöldið verður á dagskrá í nótt en bein útsending hefst kl. 1 á Stöð 2 Sport.

MMA

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×