Sport

Sara vann „The Open“ og Íslendingum fjölgaði á heimsleikunum 2019

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir .
Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir . Mynd/iInstagram/sarasigmunds
Íslenska CrossFit fólkið var að gera góða hluti í opna hluta undankeppninnar fyrir heimsleikana í CrossFit og íslensku þátttakendum fjölgaði um tvo. Úrslitin eru kunn þótt að CrossFit samtökin séu ekki búin að staðfesta lokatölurnar.

Íslenska CrossFit konan Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir var heldur betur að gera frábæra hluti í Open-hluta undankeppninnar fyrir heimsleikana í CrossFit. Sara vann „The Open“ í ár sannfærandi en önnur var Anníe Mist Þórisdóttir. Ísland átti því tvær bestu konurnar.





Sara var búinn að tryggja sig inn á heimsleikana með sigri á Strength in Depth mótinu í London en Anníe Mist er nú örugg inn en tuttugu efstu konurnar í opna hlutunum fá farseðilinn til Madison. Sara hefur í raun tryggt sig tvisvar inn á heimsleikana með frammistöðu sinni.





Anníe Mist hefur því fengið farseðilinn á það sem gætu orðið hennar tíundu heimsleikar í CrossFit á ferlinum sem er magnaður árangur. Anníe Mist hefur fimm sinnum komist á pall á heimsleikunum.

„The Open“ skiptist í fimm hluta og Sara var var með 42 stig en markmiðið er að vera með sem fæst stig. Stigatalan í hverjum hluta ræðst af sætinu í hverjum hluta. 1. sæti er 1 stig, 5. sæti er 5 stig og svo framvegis. Sara var því að meðaltali í 8,4 sæti.

Anníe Mist fékk 74 stig. Katrín Tanja Davíðsdóttir varð síðan í fimmtánda sæti með 228 stig en hún hafði tryggt sig áður inn á heimsleikana með sigri á CrossFit móti í Suður-Afríku.





Björgvin Karl Guðmundsson náði þriðja besta árangrinum í karlahluta „The Open“ en hann var á eftir Bandaríkjamanninum Mathew Fraser og Grikkjanum Lefteris Theofanidis.

Björgvin Karl komst því inn á heimsleikana sem einn af þeim tuttugu efstu í „The Open“ en árangur Mathew Fraser hefði einnig tryggt Björgvin farseðilinn þar sem Björgvin Karl varð í öðru sæti á eftir Mathew Fraser á CrossFit móti í Dúbaí í desember.

Eins og sjá má hér fyrir neðan varð Ísland í 1. sæti í kvennaflokki og í 9. sæti í karlaflokki í fimmta hluta „The Open“.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×