Tónlist

Telja í gamaldags rokkhátíð á Hard Rock

Benedikt Bóas skrifar
Skálmöld spilaði á 22 tónleikum á mánaðartúr um Evrópu. Hér á  lokatónleikunum í Tilburg ásamt 3.000 aðdáendum. Það komast um 300 á Hard Rock svo það verður þröngt, sveitt og heitt á slammgólfinu.
Skálmöld spilaði á 22 tónleikum á mánaðartúr um Evrópu. Hér á lokatónleikunum í Tilburg ásamt 3.000 aðdáendum. Það komast um 300 á Hard Rock svo það verður þröngt, sveitt og heitt á slammgólfinu. Mynd/Camiel Hirschberg
Ein vinsælasta þungarokkshljómsveit landsins, Skálmöld, hleður í ferna tónleika á næstunni. Þeir byrja á Hard Rock um helgina en færa sig svo til Akureyrar. Þetta verða gamaldags tónleikar með öllum uppáhaldslögum þeirra en ekki útgáfutónleikar. Þeir nenna því ekki.

Það eru fjögur Skálm­aldargigg fram undan sem verða okkar einu tónleikar á Íslandi á þessu ári. Við teljum í tvenna tónleika á Hard Rock á föstudag og laugardag og færum okkur svo norður á Græna hattinn á fimmtudag og föstudag,“ segir Þráinn Árni Baldvinsson, gítarleikari í þungarokksbandinu Skálmöld.

Þráinn Árni verður með gítarspjall í Hljóðfærahúsinu á föstudag þar sem hann segir frá gítörunum sínum ásamt því að spila nokkur lög. Miðvikudaginn 10. apríl er hann ásamt Eyþóri Inga og Lúðrasveit Þorlákshafnar í Seljakirkju og þremur dögum síðar í Þorlákshöfn. Á milli skýst hann til Akureyrar til að telja í með Skálmöld. Fréttablaðið/Vilhelm
Hljómsveitin er nýkomin heim eftir mánaðartúr um Evrópu þar sem hún spilaði á 22 tónleikum. Fengu einn frídag í Árósum í Danmörku. „Þetta var algjörlega brilljant túr. Við vorum með Aelstorm, vinum okkar, og þetta voru alveg rosaleg gigg. Yfirleitt uppselt og þetta stækkar alltaf og stækkar og við eldumst alltaf og eldumst. Núna vorum við bara í einhverjum voðalegum golfleik á milli gigga –ekki mikið rokk í því,“ segir Þráinn.

Hann segir að bandið sé í túrstuði og þétt enda hafi það verið fullmannað á túrnum. Allir voru með en hljómsveitin hefur þurft að reiða sig á varamenn að undanförnu vegna forfalla. „Þetta verða fernir alveg geggjaðir tónleikar. Við fögnum þarna með liðinu okkar. Sumir halda að þetta séu útgáfutónleikar út af nýju plötunni okkar en við ætlum ekkert að telja í eina slíka. Þetta verður bara klúbbagigg af gamla skólanum þar sem öll okkar uppáhaldslög verða spiluð.“

Þráinn ætlar einnig að vera með gítarspjall í Hljóðfærahúsinu þar sem hann sýnir gítarana sína og segir lygasögur úr túrnum. „Ég spila svo eitthvað líka. Þetta er klukkutími og frítt inn. Ég hef gert svona áður og þarna er mikil nánd og skemmtilegar spurningar sem koma upp. Svo segir maður skröksögur og spilar eitthvað alveg ægilega hratt. Þetta heitir Guitar Klin­ik á útlensku, en er ekki gítarspjall fínt íslenskt orð?“

Fyrir utan að spjalla verður Þráinn með Eyþóri Inga og Lúðrasveit Þorlákshafnar, bæði miðvikudaginn 10. apríl í Reykjavík og laugardaginn 13. apríl í Þorlákshöfn. Vegna velgengni Þórsara í körfuboltanum munu þeir félagar spila fyrr en auglýst var því Þórsarar eiga heimaleik gegn KR þennan sama dag. Ákveðið rokk í því.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×