Bíó og sjónvarp

James Gunn endurráðinn sem leikstjóri Guardians of the Galaxy 3

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
James Gunn leikstjóri.
James Gunn leikstjóri. Christopher Polk/Getty

Leikstjórinn James Gunn, sem Disney sagði á síðasta upp frá framleiðslu nýjustu myndar ofurhetjumyndarisans Marvel, Guardians of the Galaxy 3, hefur verið endurráðinn sem leikstjóri og megin handritshöfundur myndarinnar.

Gunn var á sínum tíma sagt upp eftir að gömul tíst þar sem hann fjallaði af léttúð um árásirnar á Tvíburaturnana 11. september, nauðganir og barnaníð voru grafin upp og fjölmiðlar gerðu að umfjöllunarefni sínu. Tístin voru frá árunum 2008 og 2009.

Þegar Gunn var látinn fara á sínum tíma sagði stjórnarformaður Walt Disney, Alan Horn, að hegðun leikstjórans væri „óverjanleg“ og sleit í kjölfarið tengslum við hann.

Samkvæmt heimildum Deadline var ákvörðunin um að endurráða Gunn tekin fyrir nokkrum mánuðum í kjölfar viðræðna milli Marvel og Disney. Horn hafi verið sannfærður eftir opinbera afsökunarbeiðni Gunn, auk fundaraðar milli málsaðila.

Stjörnur fyrri myndanna tveggja um verði vetrarbrautarinnar sem Gunn leikstýrði, Bradley Cooper, Zoe Saldana, Chris Pratt og Dave Bautista, stóðu við bakið á Gunn í kjölfar brottrekstursins og lýstu yfir stuðningi sínum við leikstjórann. Sá síðastnefndi gekk jafnvel svo langt að segjast ekki vilja taka þátt í framleiðslu fleiri Guardian mynda, væri Gunn ekki í leikstjórastólnum.

Bautista mun þó ekki þurfa frá að hverfa vegna þess þar sem Gunn hefur nú verið endurráðinn sem leikstjóri og ákvörðun tekin um að nota upphaflegt handrit hans að myndinni.
 


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.