Fótbolti

Aron Einar: Vildi vinna aftur með Heimi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Peralada skrifar
Aron Einar Gunnarsson segist afar spenntur fyrir nýju verkefni en hann mun í sumar ganga í raðir Al Arabi í Katar, lið Heimis Hallgrímssonar. Hann segir að þeir hafi viljað starfað saman á nýjan leik.

„Ég hef átt í góðu sambandi við Heimi í gegnum tíðina, bæði þegar hann var með landsliðinu og fór svo annað. Ég er hrikalega spenntur fyrir þessu. Það er uppbyggingarstarf í gangi hjá þessu félagi og ég hef rætt mikið við Heimi um það sem hann vill breyta,“ sagði Aron við íþróttadeild.

„Ég er spenntur fyrir því að prófa eitthað nýtt eftir að hafa verið í ellefu ár á Bretlandseyjum - prófa eitthvað nýtt meðan maður getur. Ég er hrikalega spenntur og fjölskyldan öll.“

Hann segist ekki hafa verið að skoða neina aðra kosti. Heimir hafi viljað fá hann og áhuginn var gagnkvæmur.

„Ég hafði hugsað mér að vinna með Heimi aftur og hann vissi alveg af því. Þetta er samt ekki auðveld ákvörðun enda búinn að vera lengi hjá Cardiff og það verður erfitt að kveðja.“

Aron Einar var að glíma við erfið hnémeiðsli í aðdraganda HM í sumar og var lengi að jafna sig á þeim. En honum líður vel í dag.

„Ég þurfti að taka mér meiri tíma í upphafi tímabils en ég er í góðu standi í dag. Ég er ekki lengur bara að æfa einu sinni í viku. Ég er að æfa miklu meira og svo að spila alla þessa leiki. Ég er í góðu standi, það er ekkert hægt að kvarta í rauninni. Ég hef verið verri, það er alveg á hreinu.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×