Lífið

Mennirnir á bak við Hatara

Birgir Olgeirsson skrifar
Hljómsveitin Hatari tekur þátt í Söngvakeppni Sjónvarpsins í ár.
Hljómsveitin Hatari tekur þátt í Söngvakeppni Sjónvarpsins í ár. Ásta Sif Árnadóttir
Svo virðist vera sem mikil eftirvænting sé eftir framlagi hljómsveitarinnar Hatara í Söngvakeppni Sjónvarpsins en um 45% þátttakenda í óformlegri könnun Vísis töldu lag hennar eiga eftir að fara alla leið sem framlag Íslands í Eurovision.

Hatari mun flytja lagið Hatrið mun sigra og ljóst að þessi sveit og þetta framlag er ansi frábrugðið öðru því sem sést hefur í þessari sögufrægu keppni. 

Hljómsveitin hefur verið starfandi í hart nær þrjú ár og er þekkt fyrir bdsm-klæðnað og listræna gjörninga og hefur hljómsveitin leikið sér að því að senda frá villandi upplýsingar til að sveipa þessu bandi nokkurri dulúð.

Sveitin saman stendur af þeim Matthías Tryggva Haraldssyni, Klemens Nikulássyni Hannigan og Einari Stefánssyni.

Matthías Tryggvi Haraldsson, annar af söngvurum Hatara.Fréttablaðið
Matthías Tryggvi er söngvari Hatara en hann er útskrifaður af sviðshöfundabraut Listaháskóla Íslands og hefur starfað undanfarið sem fréttamaður Ríkisútvarpsins.

Klemens Hannigan, annar af söngvurum Hatara.YouTube
Klemens Hannigan  er einnig söngvari í sveitinni en hann er útskrifaður húsgagnasmiður frá Tækniskólanum en ætla má að námið hafi nýst honum vel því hann hannaði og smíðaði sviðsmynd við nýtt myndband við Söngvakeppnis-framlag sveitarinnar sem var frumsýnt í dag.

Einar Stefánsson, liðsmaður Hatara. FBL/Anton Brink
Einar Stefánsson starfar hjá Red Bull á Íslandi og var í viðtali við Fréttablaðið um daginn þar sem hann ræddi um tónlistarakademíu Red Bull og hvatti íslenska tónlistarmenn til að sækja um.

Svikamylla ehf. er rekstraraðili Hatara en fyrirtækið á og rekur vefinn Iceland Music News þar sem einungis er að finna fréttir um sveitina.

Söngvarar Hatara í viðtali við Iceland Music News.Skjáskot
Sveitin tilkynnti með miklum látum um lokatónleika sína á síðasta ári sem fóru fram á skemmtistaðnum Húrra við mikla hrifningu viðstaddra.  Það gerði sveitin þó hún væri bókuð á hollensku tónlistarhátíðina Eurosonic sem fór fram í janúar síðastliðnum. 

Sveitin mun keppa á fyrra undankvöldi Söngvakeppninnar sem fer fram laugardagskvöldið 9. febrúar næstkomandi. 


Tengdar fréttir

Auglýsa Svikamyllu ehf. út um alla borg

Hljómsveitin Hatari gefur út sína fyrstu EP-plötu á laugardaginn næstkomandi. Sveitin mun koma fram á Neysluvöku sama dag með Cyber, Kuldabola og russian.girls. Bak við viðburðinn er hið dularfulla félag Svikamylla ehf.

Hatari frumsýnir myndband við Hatrið mun sigra

Sveitin Hatari mun taka þátt í Söngvakeppninni með lagið Hatrið mun sigra. Sveitin stígur á svið í Háskólabíói og flytur lagið á fyrra undanúrslitakvöldinu í keppninni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×