Sport

Katrín komin inn á heimsleikana með sigri í Suður-Afríku

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Katrín Tanja Davíðsdóttir.
Katrín Tanja Davíðsdóttir. Mynd/Instagram/katrintanja
Katrín Tanja Davíðsdóttir er komin með þátttökurétt á heimsleikunum í CrossFit í ágúst eftir að hún vann Fittest in Cape Town mótið sem fram fór í Suður-Afríku síðustu daga.

Katrín leiddi mótið að loknum fyrsta degi og hélt forystunni allan tímann. Fyrir lokadaginn í dag var forskot hennar þó aðeins sex stig, en sigur í fyrstu tveimur greinum dagsins þýddi að hún var í góðum málum fyrir lokagreinina.

Hún náði ekki að fullkomna daginn og vinna lokagreinina, þar varð hún fimmta á tímanum 03:55,81. Hún var tæpri mínútu á eftir Mia Akerlund sem vann greinina.

Katrín endaði með 856 stig, 54 stiga forystu á Akerlund og Alessandra Pichelli sem deildu öðru sætinu. 

Sigurinn þýðir að Katrín Tanja verður á meðal keppenda á heimsleikunum, en þeir fara fram í Madison í Bandaríkjunum í ágúst. Katrín hefur tvisvar unnið heimsleikana, árin 2015 og 2016, en hún varð þriðja á síðasta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×