Innlent

Erlendir ferðamenn munu greiða fjörutíu prósent af vegatollum

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar

Erlendir ferðamenn munu greiða fjörutíu prósent af þeim vegatollum, sem settir verða á í landinu til að flýta mikilvægum samgöngubótum. Eyþór Ólafsson, forseti bæjarstjórnar Hveragerðisbæjar vill að allir bifreiðareigendur greiði vegatoll þar sem rukkaðir yrðu þrjár til fjórar krónur á hvern ekinn kílómetra.

Þingmennirnir Jón Gunnarsson og Vilhjálmur Árnason frá Sjálfstæðisflokksins, Oddný G. Harðardóttir frá Samfylkingunni og Eyþór Ólafsson, forseti bæjarstjórnar Hveragerðisbæjar mættu á opinn fund hjá Rafhjólaklúbbnum Skjaldbökum í Hveragerði í vikunni þar sem rætt var um vegatolla og framkvæmd þeirra sem er landsátak. Sérstaklega er treyst á ferðamenn í átakinu sem fara um vegi landsins.
 
„Við höfum áætlað í okkar útreikningum að þetta geti orðið að minnsta kosti fjörutíu prósent sem greitt verði af þessum fjárfestingum, sem er í þessu verkefni eins og við höfum lagt það upp, sextíu til sextíu og fimm milljarðar, að það geti allt að fjörutíu prósent af því verið greitt af erlendum ferðamönnum“, segir Jón.
 
Jón segir að með vegatollum yrði hægt að fara í hlutina einn, tveir og þrír,t.d. að byggja nýja brú yfir Ölfusá sem er í dag á fimm til tíu ára tímabili í samgönguáætlun.
 
„Okkar hugmyndir ganga út á það að fara bara í hana strax“.
 
 
 

Eyþór Ólafsson, forseti bæjarstjórnar Hveragerðisbæjar. Hveragerðisbær

Ekki hefur verið ákveðið hvernig vegatollarnir verði innheimtir en forseti bæjarstjórnar Hveragerðisbæjar segir að eina sanngjarnaleiðin sé að rukka kílómetra gjald á alla bíla sem fara um vegi landsins, stóra sem smáa.

„Þetta er sanngjarnasta leiðin vegna þess að þarna leggst þetta jafnt á alla miðað við hvað þeir keyra", segir Eyþór.
 
Fram kom á fundinum að stofnað yrði sérstakt félag um vegatollana líkt og var gert með Spöl og Hvalfjarðargöngin.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.