Lífið

Við erum öll hluti af samfélaginu

Starri Freyr Jónsson skrifar
"Þannig verðum við víðsýnni og umburðarlyndari þegar við búum við fjölbreytileika, fyrir utan að mannlífið verður skemmtilegra,“ segir Hilma Hólmfríður Sigurðardóttir.
"Þannig verðum við víðsýnni og umburðarlyndari þegar við búum við fjölbreytileika, fyrir utan að mannlífið verður skemmtilegra,“ segir Hilma Hólmfríður Sigurðardóttir. MYND/ERNIR

Næstum fjórðungur íbúa í Reykjanesbæ er með erlent ríkisfang, þar af eru um 16% íbúa bæjarins af pólsku bergi brotin. Það er því óhætt að segja að Hilma Hólmfríður Sigurðardóttir, sem ráðin var verkefnisstjóri fjölmenningarmála hjá Reykjanesbæ í apríl á síðasta ári, standi frammi fyrir fjölbreyttum og spennandi áskorunum í starfi sínu þar sem hún vinnur að því að styrkja og efla fjölmenningarsamfélag Reykjanesbæjar með öllum mögulegum leiðum og í samstarfi við þá sem að máli koma

Hún segir fjölbreytni í mannlífinu alltaf vera til góða. „Þannig verðum við víðsýnni og umburðarlyndari þegar við búum við fjölbreytileika, fyrir utan að mannlífið verður skemmtilegra. Fjölmenningarsamfélag Reykjanesbæjar er ekkert annað en samfélagið allt. Við erum öll hluti af því og ef við ætlum að vinna að góðu samfélagi þá þarf að skapa rými fyrir þátttöku allra, óháð uppruna eða öðrum þáttum sem stundum koma í veg fyrir að fólk upplifir sig sem hluta af heildinni. Það þurfa allir að hafa jöfn tækifæri til þess að tilheyra heildinni og við leitumst öll eftir því að finna okkur sess þar sem okkur líður vel.“

Þurfum að taka pláss

Rými fyrir þátttöku og jöfn tækifæri snýr að tveimur þáttum að hennar sögn. „Annars vegar þurfum við að taka ábyrgð á þátttöku okkar í samfélaginu, hvert og eitt okkar þarf að taka pláss. Allir þurfa að spila með, hafa skoðun og láta ljós sitt skína. Aðeins þannig verður til það hreyfiafl sem samfélagið þarf á að halda. Í umræðu dagsins í dag um félagslega einangrun, kvíða og lyfjanotkun þá er þetta nokkuð sem við þurfum öll að huga að.“

Hin hliðin á þessu máli er svo leyfið til þátttöku eða tækifæra sem bjóðast, segir hún. „Við þurfum að gefa öllum meðborgurum okkar rými til þess að taka þátt og taka vel á móti þeim þegar þeir það gera. Um leið þurfum við að líta í kringum okkur og skoða hjá okkur sjálfum hvort við séum í raun og veru að gefa öllum þetta rými. Rýmið veitum við með orðræðunni okkar, upplýsingagjöf, viðburðum og vinsamlegheitum.“

Þarna þurfi ekki aðeins að huga að uppruna fólks heldur líka því að sumum gengur verr en öðrum að taka pláss í samfélaginu bætir hún við. „Þarna kemur vináttan inn. Verum vinaleg og gefum öllum rými til þátttöku. Umræðan um mat á menntun erlendra ríkisborgara hefur líka verið hávær undanfarið. Þar held ég við séum ekki að gera nóg og finnst mér mikilvægt að vinnustaðir, atvinnurekendur og stéttarfélög séu enn meira vakandi fyrir því að starfsfólk sé upplýst um réttindi sín og skyldur og hvetji til samfélagslegrar virkni.“

Kynnar hátíðarinnar, Marcelina Owczarska og Julia Dubrowska, heilluðu alla með útgeislun sinni og framkomu. MYND/TOMASZ LENART

Fylgist náið með

Um leið og hún sinnir stefnumótum með starfsfólki Reykjanesbæjar og bæjarfulltrúum er hún líka stuðningur við félagsráðgjafa og sérfræðinga af fræðslusviði og öðrum sviðum bæjarins. „Ég fylgist náið með því sem er að gerast innan málaflokksins og upplýsi aðra sem að máli koma og tengi viðeigandi starfsfólk. Einnig hef ég haldið fyrirlestra á starfsstöðvum Reykjanesbæjar og fyrir aðra hópa um fjölmenningu og menningarnæmi, hugvekju um það sem við getum gert til þess að efla og styrkja samfélagið sem við búum í.“

Reykjanesbær vinnur nú að skýrri og aðgengilegri móttökuáætlun nýrra íbúa sveitarfélagsins, enda er sveitarfélagið ört stækkandi og mikið af nýjum íbúum. „Það er mikilvægt að við hugum að öllum nýjum íbúum í slíkri vinnu. Leik- og grunnskólarnir hafa t.d. verið að gera mjög vel á þessum vettvangi og tekið með markvissum hætti á móti nýjum nemendum og fjölskyldum þeirra.“


Vinátta og sterk tengsl

Í umræðunni um innflytjendur er gjarnan rætt um mikilvægi þess að þeir aðlagist viðkomandi samfélagi. Hilma er ekki sammála þessari nálgun. „Það er mikilvægt að tala ekki um að við séum að láta þennan hóp aðlagast samfélagi okkar. Við eigum ekki samfélagið frekar en þau sem eru af erlendum uppruna. Samfélagið eigum við í sameiningu.“

Hún segir einfalda svarið við spurningunni um hvað sé gott og fallegt samfélag vera, að þar ríki vinátta og sterk persónuleg tengsl íbúa. „Það hefur margsannað sig að við erum bæði jákvæðari og hjálpsamari við vini okkar og þá sem okkur þykir vænt um en aðra. Þá þurfum við að skoða hvaða leiðir má fara til þess að efla og styrkja vináttu og persónuleg tengsl íbúa.“


Vel heppnuð hátíð

Í nóvember á síðasta ári hélt Reykjanesbær pólska menningarhátíð í tilefni 100 ára afmælis sjálfstæðis Póllands. Hátíðin var fjölsótt og mjög vel heppnuð að sögn Hilmu sem segir að Reykjanesbær hafi fundið fyrir mikilli velvild og jákvæðni í garð hátíðarinnar. „Markmið hátíðarinnar var að skapa rými fyrir persónuleg tengsl og vináttu meðal íbúa Reykjanesbæjar, óháð uppruna. Íbúar af pólskum uppruna settu upp sögusýningu um Pólland og pólska menningu og Tónlistarskóli Reykjanesbæjar flutti pólska tónlist. Með jákvæðri nálgun og framsetningu var hvatt til aukinnar samfélagslegrar virkni og stuðlað að gagnkvæmri virðingu í samskiptum íbúa af ólíkum uppruna.“


Leiðandi sveitarfélag

Hilmu líður vel í nýju starfi og segist hafa trú á því að Reykjanesbær sé, og geti verið í enn ríkari mæli, leiðandi sveitarfélag þegar kemur að þjónustu við íbúa af erlendum uppruna. „Við erum lítið samfélag og þar af leiðandi með litla stjórnsýslu með stuttum boðleiðum. Samt erum við nægilega stór til þess að vera með hóp sérfræðinga að störfum og samstarfsaðila innan og utan sveitarfélagsins eins og heilbrigðisstofnun, fjölbrautaskóla, endurmenntunarmiðstöðvar og Vinnumálastofnun. Við erum líka með nægilegan fjölda íbúa til þess að geta sérhæft okkur í þjónustu og gert vel við íbúana okkar og það er það sem við ætlum að halda áfram að gera og halda áfram að efla okkur til enn betri verka.“

100 ára gömul herklæði voru til sýnis á menningarhátíðinni. MYND/TOMASZ LENART

Bæjarhátíðin Ljósanótt er 20 ára á árinu og er ætlunin að leggja sérstaka áherslu á fjölbreytileika mannlífsins í Reykjanesbæ. „Við ætlum okkur að skapa aukið rými fyrir íbúa Reykjanesbæjar af erlendum uppruna til þess að taka þátt í þessari skemmtilegu menningarhátíð. Reykjanesbær á jafnframt 25 ára afmæli á árinu og stefnir því í eitt allsherjar hátíðarár.“

Uppalin á Suðurnesjum

Hilma er Suðurnesjakona, fædd í Sandgerði, stundaði ung fimleika í Keflavík og býr í dag í Njarðvík ásamt fjölskyldu sinni. „Ég lærði félagsráðgjöf í Háskóla Íslands ­og lagði alltaf ríkulega áherslu á málefni tengd innflytjendum og fjölmenningu í náminu enda heillaðist ég af fjölmenningarmálum og fjölmenningarsamfélaginu með öllum þeim áskorunum sem það felur í sér.“

Eftir útskrift hóf hún störf hjá Reykjavíkurborg á nýstofnaðri þekkingarmiðstöð fjölmenningarmála sem var þá Þjónustumiðstöð Miðborgar og Hlíða. „Þar kynntist ég flottu fagfólki og starfaði náið með miklum reynsluboltum sem ég lærði mikið af. Á þjónustumiðstöðinni fengum við rými til þess að sérhæfa okkur í störfum okkar sem félagsráðgjafar, leggja áherslu á stuðning og ráðgjöf við innflytjendur og flóttafólk og vinna leiðir til þess að styrkja Reykjavíkurborg sem fjölmenningarborg.“


Þakklát yfir tækifærinu

Eftir störf sín hjá Reykjavíkurborg hóf Hilma störf hjá velferðarráðuneytinu í málefnum flóttafólks og innflytjenda. „Þar starfaði ég ekki síður með miklum reynsluboltum og fékk tækifæri til þess að koma að þróun málaflokksins og vinna að stefnumótun. Það var lærdómsríkt og skemmtilegt að starfa innan stjórnsýslunnar í Stjórnarráðinu í svo nánu samstarfi við löggjafarvaldið eins og það er.“

Hún er þakklát og glöð yfir því að hafa fengið tækifæri til þess að sinna starfi sínu hjá Reykjanesbæ og nýtur þess að móta nýtt starf með nýjum samstarfsfélögum í nýju umhverfi. „Mér hefur verið tekið af mikilli jákvæðni og velvild og ég finn fyrir jákvæðum straumum í garð starfsins alls staðar þar sem ég kem. Enda er það svo að til þess að efla samfélagið þarf ábyrgðin að liggja hjá okkur öllum.“Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.