Innlent

Óvenju mörg flugslys í ár

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar

Banaslys varð á Haukdadalsflugvelli í Rangárvöllum í gær þegar flugvél skall þar til jarðar í flugtaki. Flugmaðurinn var einn í vélinni. Rannsóknarnefnd flugslysa lauk starfi sínu á Haukdadalsflugvelli á Rangárvöllum í nótt og var flak vélarinnar flutt til Reykjavíkur.



Ragnar Guðmundsson rannsakandi hjá Rannsóknarnefnd samgönguslysa segir erfitt að meta hvenær hægt verði að upplýsa um ástæður flugslyssins.



„Það er einfaldlega of snemmt að segja til um það hvað gerðist. Við erum með ákveðna þætti sem við erum að skoða en við erum ekki til í að upplýsa neitt um það enn sem komið er,“ segir Ragnar.   



Í framhaldinu verður flak vélarinnar rannsakað en flugvélin var tveggja sæta og heimsmíðuð. Ragnar segir að ekkert bendi núna til þess að eitthvað hafi verið að vélinni. 



Annað flugslys varð á Haukadalsvelli á föstudaginn þegar lítil vél hlekktist þar á og stöðvaðist á hvolfi. Flugmanninum varð ekki meint af. Ágúst Guðmundsson stjórnarmaður í Flugmálafélaginu sagði í hádegisfréttum Bylgunnar að slysin tengdust ekki vellinum.



Ragnar er sömu skoðunnar.



„Það er ekkert sem bendir til þess núna að eitthvað sé að vellinum,“ segir Ragnar. 



Um fimmta tug manna var viðstaddur þegar banaslysið varð í gær og tók Rannsóknarnefndin skýrslu af þeim í gær og Lögreglan á Suðurlandi.



„Við tökum fjölmargar skýrslur í gær en höfum ekki lokið við að tala við alla,“ segir Ragnar.



Sex flugslys hafa orðið á landinu síðustu tvo mánuði og þar af tvö banaslys þar sem fjórir hafa látist. Ragnar segir þetta óvenju mikið.



„Það varð ekkert banaslys í fyrra en stundum koma þau í bylgjum eins og núna en þetta er óvenjulegt. Mig langar að nota tækifærið og minna menn sérstaklega á öryggismálin en það er hægt að sækja sér mikinn fróðleik varðandi þau,“ segir Ragnar að lokum. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×