Lionel Messi er fyrir löngu búinn að tryggja sér sæti í fámennum hópi bestu knattspyrnumanna sögunnar. Honum var gefið vaxtarhormón þegar hann var ungur og hafði án þeirra aldrei náð þangað sem hann er kominn í dag.
Norðmenn benda á þessa staðreynd í umræðunni um framtíðarstjörnu sína í skíðagöngunni. Dagbladet segir frá.
Norska skíðasambandið sendi frá sér fréttatilkynningu í gær þar sem kom fram að hin 17 ára gamla Helene Marie Fossesholm hefði fengið vaxtarhormón í þrjú ár.
Helene Marie Fossesholm þurfti, eins og Lionel Messi, á þessum vaxtarhormínum að halda þar sem hún var mjög smávaxin í kringum ellefu ára aldurinn.
Þegar Lionel Messi skrifaði undir fyrsta samning sinn við Barcelona aðeins þrettán ára gamall þá lofaði Barcelona að greiða fyrir umrædda hormónagjöf Messi.
Félag Messi í Argentínu, Newell's Old Boys, var ekki tilbúið að greiða fyrir meðferðina. Loforð Barcelona þýddi að fjölskyldan flutti til Spánar og hann óx og dafnaði í La Masiu þeirra Börsunga.
Fjölskyldu Fossesholm þótti það erfitt að þurfa að segja opinberlega frá meðferð stelpunnar en í tilkynningu norska sambandsins kom fram að farið var eftir öllum reglugerðum Alþjóðlyfjaeftirlitsins.
WADE gefur undanþágur í tilfellum eins og þeim hjá Helene Marie Fossesholm og Lionel Messi.
Lionel Messi náði á endanum 170 sentimetrum en Helene Marie Fossesholm er enn „bara“ 151 sentimetri á hæð. Hún var aftur á móti aðeins 137,5 sentimetrar á hæð þegar hún var þrettán og hálfs árs.
Fossesholm þykir vera efnilegasta skíðagöngukona Norðmanna í áratug og margir hafa líkt henni við hina sigursælu Marit Björgen sem vann fimmtán verðlaun á Ólympíuleikum þar af átta gull.
