Tónlist

Rannsakar eigin rödd betur

Starri Freyr Jónsson skrifar
„Það sem ég lærði kannski líka er að maður verður að vera trúr sinni sannfæringu og gera það sem er satt fyrir mann sjálfan. Á tímabili var það FM Belfast en það tók endi eins og gengur og gerist,“ segir Árni Vilhjálmsson sem undirbýr sína fyrstu sólóplötu um þessar mundir.
„Það sem ég lærði kannski líka er að maður verður að vera trúr sinni sannfæringu og gera það sem er satt fyrir mann sjálfan. Á tímabili var það FM Belfast en það tók endi eins og gengur og gerist,“ segir Árni Vilhjálmsson sem undirbýr sína fyrstu sólóplötu um þessar mundir. fbl/anton

Eftir níu eftirminnileg ár með gleðisveitinni FM Belfast hefur Árni Vilhjálmsson, einn söngvara sveitarinnar, sagt skilið við félaga sína og hafið sólóferil. Hann kemur fram á Airwaves-tónlistarhátíðinni í næsta mánuði en fyrr í vikunni gaf Árni út fjórða lag sitt á árinu, Sides. Óhætt er að segja að tónlist Árna sé talsvert ólík þeirri sem hann var að fást við í FM Belfast þar sem lífleg elektrón­íkin víkur fyrir rólegri tónlist með hjálp fjölbreyttari hljóðfæra. „Tónlistin sem ég gef út undir nafninu Árni Vil er á frekar persónulegum nótum. Ég hef mest unnið hana með Þóri Bogasyni (Thoracius Appotite) en hann er mjög hæfileikaríkur, bæði tónlistarlega og svo gerir hann frábær myndbönd.“

Innblásturinn segist hann sækja í ýmis stef úr lífi sínu. „Stefin eru samt örugglega á einhvern hátt almenn líka og eitthvað sem margir hafa staðið frammi fyrir. Eins og t.d. óttann við að verða ekki það sem þú vilt vera, þráhyggju og vera með drauma en liggja svo bara í kvíða og aðgerðarleysi uppi í rúmi á Facebook og fylgjast með lífinu fjara út.“

Hálfgerðar geimverur

Lögin fjalla líka á einhvern hátt um eitthvað sammannlegt, að sögn Árna. Um það hvað við erum lík og dílum við sömu hlutina en getum um leið birst hvert öðru eins og geimverur. „Þetta eru kannski að einhverju leyti barnalegar og persónulegur pælingar en lögin og textarnir eru unnir með lítilli ritskoðun. Textarnir eru á ensku af því hugðarefnin eru frekar almenn og þá er fínt að fleiri skilji orðin. Ég er samt orðinn frekar spenntur fyrir því að prófa líka að gefa út lög á íslensku.“

Um þessar mundir er verið að klára að mixa önnur lög plötunnar en hann reiknar með því að hún komi út fyrir jól. „Ég hef líka verið að vinna lög með Thomasi Stankiewicz sem er mjög klár pródúsent og ætlum við að gefa út nokkur lög á komandi mánuðum. Einnig kemur bráðlega út lag sem við Teitur Magnússon sömdum saman.“

fbl/anton

Góður tími

Árin níu með FM Belfast voru eftirminnileg að sögn Árna sem segir allar tónleikaferðirnar standa upp úr í minningunni. „Það er í rauninni frekar merkilegt að svona lítil indí elektrósveit hafi náð að túra sumar eftir sumar á hverju festivalinu á fætur öðru víða um heim. Einnig var mjög lærdómsríkt að vinna með Árna Rúnari og Lóu en þau eru einstaklega skapandi. Það sem ég lærði kannski líka er að maður verður að vera trúr sinni sannfæringu og gera það sem er satt fyrir mann sjálfan. Á tímabili var það FM Belfast en það tók endi eins og gengur og gerist. Eftir níu ár og þrjár plötur var ég orðinn þreyttur á að túra og fannst það ekki lengur jafn gefandi. Það var kominn tími á að ég gerði eitthvað nýtt og rannsakaði mína eigin rödd betur.“


Útvarpið skemmtilegt

Þótt flestir þekki tónlistarmanninn Árna á hann sér ýmsar fleiri listrænar hliðar. Hann er m.a. einn meðlima í leikhópnum ­Kriðpleir og listahópnum Art – Studio Art Collective sem var stofnaður nýlega. „Útvarpsleikritið Bónusferðin eftir okkur félaga í Kriðpleir var flutt á Rás 1 fyrir stuttu og er hægt að hlýða á það á vef RÚV. Það var mjög skemmtilegt að vinna leikrit fyrir þennan miðil en við höfðum ekki gert það áður. Við vorum ekki alveg vissir um hvernig dínamíkin á milli karakteranna myndi skila sér í útvarpi en við teljum að vel hafi tekist til. Leikhópurinn var að skila inn umsókn í sviðslistasjóð og reikna ég með því að við vinnum nýtt verk á næsta ári.“


Ólíkar afurðir

Listahópurinn Art-Studio Art Collective var stofnaður nýlega af Árna og vini hans Ými Grönvold myndlistarmanni og Þórði Hans Baldurssyni, forritara og digital listamanni. „Við vinnum alltaf eftir ákveðnu ferli og höfum verið að búa til hitt og þetta, þar á meðal alls kyns varning eins og trefla, handklæði, boli og peysur. Einnig gerðum við orkudrykkinn Zenergy – Positive Energy Drink sem er skúlptúr og concept-verk um jákvæða orku.“ Hann segir ferlið sem þeir vinni eftir kalla eiginlega á að það verði alltaf eitthvað búið til. „Þess vegna hafa mjög ólíkir hlutir orðið til eins og t.d. költið okkar, The World Cult, sem er komið með um 50 meðlimi, orkustöðvasamfestingur, Thai nudd vagn, nýtt skjaldarmerki sem við unnum með Óla Stef og svo nýi pappinn sem er unninn með rapparanum og fjöllistamanninum Joey Christ. Ég legg til að fólk fylgist með þessu á instagraminu okkar, @artstudioartcollective.“

Sjálfbær þróun til umræðu

Þegar Árni sinnir ekki listinni og daglegu starfi sínu hjá Íslensku auglýsingastofunni, segist hann verja mestum tíma sínum með dóttur sinni og kærustu. „Dóttir mín er mikill snillingur og er sem betur fer með svipuð áhugamál og ég. Þannig erum við oft að búa til lög, föndrum mikið saman og svo búum við líka til alls kyns dansa.“

Kærastan hans, Snjólaug Árnadóttir, pælir mikið í loftslagsmálum og segir Árni þau verja mestum tíma sínum í að spjalla um sjálfbæra þróun. „Þar má nefna umræðuefni á borð við hækkun sjávar, plastmengun, offjölgun mannkyns og fleira. Henni finnst líka gaman að flytja fyrir mig alls kyns fyrirlestra, þá helst eitthvað tengt almennri lögfræði. Utan þess hef ég helst áhuga á tónlist, öllu tengdu sjálfshjálp, myndlist, sviðslistum og kannski gríni líka. Mér finnst líka gaman að gera grín. Ég hugsa að það sem mér þyki skemmtilegast sé að gera eitthvað skapandi í hópi.“Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.