Tónlist

Skóli í jaðartónlist

Stefán Þór Hjartarson skrifar
Einar segir nokkra íslenska tónlistarmenn eiga góða möguleika á að komast inn í akademíuna.
Einar segir nokkra íslenska tónlistarmenn eiga góða möguleika á að komast inn í akademíuna. Fréttablaðið/Anton Brink
Red Bull Academy er eins konar tónlistarskóli orkudrykkjarisans Red Bull sem haldinn er annað hvert ár. Ekkert er til sparað og er ætlun skólans að styðja við bakið á ungum og upprennandi tónlistarmönnum og þá sérstaklega þeim sem koma úr rafskotinni tónlist og semja sína tónlist sjálf. Einar Stefánsson hjá Red Bull á Íslandi er gífur­lega spenntur fyrir að fá íslenska listamenn í næsta skóla en aðeins einn íslenskur tónlistarmaður hefur tekið þátt en það var Auður sem fór til Toronto árið 2016.

„Tónlistarakademía Red Bull er verkefni sem byrjaði árið 1998. Þá var hún haldin árlega alveg fram til ársins 2016 en þá var ákveðið að halda hana á tveggja ára fresti. Fyrsta akademían var haldin í Berlín og nú á 20 ára afmæli akademíunnar var hún haldin aftur þar í borg. Það er stofnun innan Red Bull sem sér einungis um þetta batterí. Fókusinn er að styðja við bakið á upprennandi tónlistarfólki og búa til nýjan vettvang fyrir áhugaverða, og oft svolítið öðruvísi, tónlistarmenn. Þetta eru tónlistarmenn sem eru á uppleið en ekki komnir þangað. Þetta eru listamenn sem gera hluti fyrir utan kassann. Þekktustu tónlistarmennirnir sem hafa verið þarna eru kannski Flying Lotus og Nina Kraviz.“



Flying Lotus er stór í jaðar-hipphoppsenunni eftir útskriftina úr akademíunni.
Þetta eru sem sagt ekki næstu poppstjörnur heimsins sem þarna nema tónlist í fimm vikur heldur tónlistarmenn sem starfa á jaðrinum. Flying Lotus hefur gert sýrt, rafskotið hipphopp í mörg ár, séð um alla tónlist á Adult Swim sjónvarpsstöðinni og unnið með mörgum stórum nöfnum í rapptónlist eins og Kendrick Lamar, Earl Sweatshirt og Mac heitnum Miller. Íslandsvinurinn Nina Kraviz frá Síberíu er einn stærsti teknólistamaður heimsins í dag og er eigandi plötufyrirtækisins ???? (trip) sem hefur haldið nokkur reiv í hellum á Íslandi.

Nina Kraviz er Íslendingum kunn en hún fór í akademíuna árið 2006.
„Hann Auðunn er fyrsti og eini íslenski tónlistarmaðurinn sem hefur farið í þessa akademíu. Hann er þar með kominn í spennandi hóp sem tekið er eftir víða um heim. Það er dómnefnd sem velur fólk inn enda berast hundruð umsókna í hverja akademíu. Þau velja 30 einstaklinga úr þessum umsóknum. Það sem þau leita að er auðvitað hvernig tónlistin er, hvort manneskjan sé að búa hana til sjálf og líka aldur – þau vilja helst fá inn yngri tónlistarmenn. Þau virðast vilja sjá krefjandi og tilraunakennda tónlist. Þetta er auðvitað skóli, sem sagt staður þar sem lærdómur á að eiga sér stað.“

Þeir umsækjendur sem valdir eru sitja svo fyrirlestra og þá er fengið inn margt helsta atvinnufólk í tónlist í heiminum. Þarna koma tónlistarmenn, upptökustjórar, plötusnúðar og svo framvegis og lýsa reynslu sinni. Á hverjum degi í fimm vikur eru tveir fyrirlestrar á dag og þess á milli hittast þátttakendur og vinna tónlist saman. „Stúdentarnir“ koma líka fram í kringum hátíðina og spila á tónleikum.

Næsta umsóknarferli er ekki fyrr en á næsta ári en Einar hvetur alla íslenska tónlistarmenn, sem hafa áhuga, til að sækja um en hann segir að margir tónlistarmenn hér á landi myndu klárlega falla undir það sem er verið að leita að hjá akademíunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×