Sport

Biðst afsökunar á taktlausri dansspurningu

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Þessa mynd birti Martin Solveig af sér og Ödu Hegerberg skömmu eftir athöfnina.
Þessa mynd birti Martin Solveig af sér og Ödu Hegerberg skömmu eftir athöfnina. Martin Solveig
Plötusnúðurinn Martin Solveig hefur beðið Ödu Hegerberg afsökunar á spurningu sinni um danshæfileika knattspyrnukonunnar. Spurningin var borin upp skömmu eftir að Hegerberg hafði hreppt Gullknöttinn fyrir hæfileika sína á fótboltavellinum, fyrst kvenna, við hátíðlega athöfn í París í gærkvöld.

„Kanntu að twerka?“ spurði plötusnúðurinn og fékk eitt stutt „Nei“ til baka, áður en Hegerberg yfirgaf sviðið.

Hinn franski Solveig segist í samtali við erlenda fjölmiðla hafa rætt við knattspyrnukonuna eftir athöfnina. Hann kveðst hafa beðið Hegerberg afsökunar og að hans sögn á hún að hafa áttað sig á „gríni“ tónlistarmannsins.

Sjá einnig: Bað bestu knattspyrnukonu heims um að „twerka“

Hegerberg segist að sama skapi ekki erfa spurninguna við plötusnúðinn. Í samtali við íþróttadeild breska ríkisútvarpsins segist hún ekki líta á spurninguna sem kynferðislega áreitni og það sem skipti mestu máli er hamingjan sem fólgin er í því að vera fyrsti kvenkyns handhafi Gullknattarins.

Sem fyrr segir þótti spurning Solveig taktlaus. Samkvæmt Oxford-orðabókinni er hið svokallaða twerk „dans sem dansaður er við vinsæla tónlist á kynferðislega ögrandi hátt og felur í sér þrýstnar mjaðmahreyfingar í djúpri hnébeygjustöðu.“ Því er ekki nema von að margir hafi greint kynferðislega undirtóna í spurningu plötusnúðarins.

Eina af fjölmörgum afsökunarbeiðnum Solveig má sjá hér að neðan.


Tengdar fréttir

Bað bestu knattspyrnukonu heims um að „twerka“

Plötusnúðurinn Martin Solveig hefur vakið reiði og hneykslan meðal margs knattspyrnuáhugafólks fyrir að biðja knattspyrnukonuna Ödu Hegerberg um að "twerka“ eftir að hún tók við Gullknettinum og var þar með krýnd besta knattspyrnukona heims.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×