Sport

Katrín Tanja: Stolt af því að vera kona með vöðva

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Katrín Tanja Davíðsdóttir.
Katrín Tanja Davíðsdóttir. Mynd/Titter/@CrossFitGames
Íslenska krossfitstjarnan Katrín Tanja Davíðsdóttir ætlar sér að endurheimta titilinn hraustasta kona heims þegar heimsleikarnir hefjast í Madison í Wisconsin fylki í Bandaríkjunum í þessarri viku.

Katrín Tanja varð í fimmta sæti á leikunum í fyrra eftir að hafa fagnað sigri árin 2015 og 2016. Hún gæti orðið fyrsta konan til að vinna titilinn þrisvar sinnum.





Katrín Tanja hefur unnið hug og hjörtu allra í krossfitheiminum og utan hans. Ekki aðeins með frábærri frammistöðu í keppni heldur einnig með því að gefa mikið af sér utan hennar og standa sig frábærlega sem fyrirmynd kvenna (og karla) út um allan heim.

Katrín Tanja er ein af andlitum Reebok íþróttavöruframleiðandans og íslenska afrekskonan er í stóru hlutverki í nýrri auglýsingaherferð Reebok. Katrín Tanja er þar í hópi með tónlistarkonunni Ariana Grande, leikkonunni Gal Gadot og tískumódelinu Gigi Hadid eins og hefur komið fram á Vísi.

Katrín Tanja talar þar um jafnrétti kvenna og karla í hennar íþrótt sem er krossfit.

„Ég er stolt af því að vera kona með vöðva. Í íþróttinni sem ég keppi í þá sitja konur og karlar við sama borð. Við gerum allt eins. Við erum með sömu æfingar, fáum jafnmikinn sjónvarpstíma og erum með sama verðlaunafé. Við konurnar getum nefnilega gert allt það sem karlarnir geta,“ sagði Katrín Tanja eins og sjá má hér fyrir neðan.





Katrín Tanja varð í fimmta sæti á heimsleikunum í fyrra sem voru vonbrigði fyrir hana eftir tvo titla í röð. Hún varð einnig „bara“ í þriðja sæti meðal íslensku krossfitstelpnanna á heimsleikunum 2017.  Bæði Anníe Mist Þórisdóttir (3. sæti) og Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir (4. sæti) voru fyrir ofan hana.

Það verður því mjög fróðlegt að fylgjast með Katrínu Tönju á heimsleikunum í ár sem hefast á miðvikudaginn kemur. Katrín Tanja sýndi styrk sinn með því að vinna svæðakeppnina í vor og þá hefur hún aldrei endað ofar í opna hluta undankeppninnar.  

Katrín Tanja endaði þar í áttunda sæti en þegar hún vann titilinn 2015 og 2016 þá endaði hún í 14. sæti í opna hlutanum. Hún vann hinsvegar svæðakeppnina í ár eins og þegar hún vann heimsleikana síðast fyrir tveimur árum síðan.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×