Innlent

Kærumálum hafnað en hreppurinn ber kostnað

Kristján Már Unnarsson skrifar
Frá Melum í Árneshreppi.
Frá Melum í Árneshreppi. Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.

Þriggja manna úrskurðarnefnd hefur hafnað kröfu andstæðinga Hvalárvirkjunar um ógildingu kosninganna í Árneshreppi og tekur fram að það varðar refsingu að færa lögheimili sitt til þess eins að verða settur á kjörskrá. Oddviti Árneshrepps býst við að þurfa að leita á náðir ríkisins til að mæta útgjöldum vegna kærumála. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2.

Skyndileg fjölgun lögheimilisskráninga í Árneshrepp í aðdraganda sveitarstjórnarkosninganna vakti landsathygli enda var því haldið fram að hér væri á ferðinni skipulögð aðgerð andstæðinga Hvalárvirkjunar til að taka yfir sveitarfélagið. Upplýst var að meirihlutinn hafði skráð sig til heimilis á eyðibýli án vitundar landeiganda. Fór svo að Þjóðskrá Íslands ógilti flesta lögheimilisflutningana, hreppsnefndin leiðrétti kjörskrána til samræmis, og fylgismenn virkjunar hlutu öll fimm sætin í hreppsnefndinni.

Ólafur Valsson, kaupmaður og dýralæknir í Norðurfirði, er einn af þeim sem kærðu. Hann hlaut flest atkvæði andstæðinga Hvalárvirkjunar í kosningunum í Árneshreppi en náði ekki kjöri. Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.

Andstæðingar virkjunarinnar kærðu kosningarnar til sýslumanns Vestfjarða, sem skipaði nefnd þriggja lögmanna til að úrskurða í tveimur kærumálum, annarsvegar í máli Sighvats Lárussonar, og hins vegar í máli Elíasar Kristinssonar og Ólafs Valssonar. 

Úrskurðarnefndin hefur nú hafnað báðum kærunum. Í niðurstöðu hennar er dregið fram að það varðar refsingu að færa lögheimili sitt í ákveðið sveitarfélag til þess eins að verða settur þar á kjörskrá, slíkt teljist til kosningaspjalla, og því verði að telja það eðlilega ráðstöfun af hálfu Þjóðskrár að hefja athugun á lögheimilisflutningunum. 

Sýslumaður vekur athygli kærenda á því að þeir eigi þess kost að skjóta úrskurðinum til dómsmálaráðuneytis.
 

Eva Sigurbjörnsdóttir, oddviti Árneshrepps. Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.

Þetta fámennasta sveitarfélag landsins þarf hins vegar að bera allan kostnað af kærumálunum, og er búist við að fjárhæðin verði sjö stafa tala. Oddviti hreppsins, Eva Sigurbjörnsdóttir, segist fyrst þurfa að sjá reikninginn en býst við að hreppurinn leiti til jöfnunarsjóðs sveitarfélaga um fjárstuðning til að mæta kostnaðinum.

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:


Tengdar fréttir

Búið að strika sextán út af kjörskrá í Árneshreppi

Hreppsnefnd Árneshrepps samþykkti í gærkvöldi að taka út fjóra einstaklinga af kjörskrá en bæta einum einstaklingi inn. Þar með er hreppsnefndin búin að ógilda sextán lögheimilsflutninga en samþykkja tvo.

Aðför sem lýsir virðingarleysi og fádæma dómgreindarleysi

Formaður Fjórðungssambands Vestfirðinga segir atburðina í Árneshreppi grófa aðför að sjálfsákvörðunarrétti sveitarfélags. Þetta sé sambærilegt því ef 40 þúsund íbúar á landsbyggðinni myndu skrá sig til málamynda í Reykjavík til að hafa áhrif á flugvöllinn í Vatnsmýri.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.