Innlent

Allir leigjendur Brynju geta sótt um húsaleigubætur

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Borgarráð samþykkti í dag að greiða sérstakar húsaleigubætur til allra leigjenda Brynju, hússjóðs Örorkubandalagsins.

Forsaga málsins er að árið 2015 höfðaði leigjandi Brynju mál gegn Reykjavíkurborg vegna synjunar á umsókn um sérstakar húsaleigubætur þar sem hann leigði ekki á almennum markaði eða hjá félagsbústöðum.

Maðurinn vann málið fyrir hæstarétti síðasta sumar og var borginni gert að greiða öllum sem höfðu sótt um bætur afturvirkt.

Í apríl lagði sjálfstæðisflokkurinn fram tillögu um að allir leigjendur ættu að fá bæturnar greiddar, óháð því hvort þeir hefðu sótt formlega um þær á sínum tíma eða ekki.

Í morgun var samþykkt í borgarráði að gera svo, og greiða dráttarvexti af öllum kröfum aftur í tímann.

Halldór Auðar Svansson, borgarfulltrúi Pírata, segir þetta vera réttlætismál enda hafi einhverjir sleppt því að sækja um bætur á sínum tíma því það fékk þau skilaboð að ekki væri hægt að fá bætur.

„Það er ekki hægt að setja ábyrgðina á fólk að hafa ekki sótt um. Því það var í raun vitað að það myndi enginn fá þetta þannig að borgin er í raun að taka þá ábyrgð til sín með því að segja: Við gátum ekki gert kröfu til þess að fólk hafi verið að sækja um bæturnar," segir Halldór.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×