Innlent

Sá sem átti að bjarga ímynd Sigmundar eftir Panamaskjölin fær enga peninga

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Meðal þess sem Viðar átti að gera var að komast að því hvaða blaðamenn væru að skrifa mest og verst um forsætisráðherrann Sigmund Davíð Gunnlaugsson.
Meðal þess sem Viðar átti að gera var að komast að því hvaða blaðamenn væru að skrifa mest og verst um forsætisráðherrann Sigmund Davíð Gunnlaugsson. Vísir/Vilhelm
Framsóknarflokkurinn þarf ekki að greiða Viðari Garðarssyni almannatengli fimm og hálfa milljón króna sem Viðar taldi flokkinn skulda sér í tengslum við vinnu í aðdraganda Alþingiskosninganna árið 2016. Þetta er niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur en dómur í málinu var kveðinn upp í dag.

Í dómnum kemur fram að Viðar hafi verið fenginn að borðinu í maí 2016 að ósk Guðfinnu Jóhönnu Guðmundsdóttur, þáverandi borgarfulltrúa Framsóknar.

Tveimur mánuðum fyrr voru Panamaskjölin gerð opinber og komu þar meðal annars fram nöfn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, þáverandi forsætisráðherra og formanns flokksins, Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttur, þáverandi borgarfulltrúa flokksins, og Hrólfs Ölvissonar, þáverandi framkvæmdastjóra flokksins.

„Akkúrat maðurinn sem þyrfti“

Guðfinna lýsti því meðal annars yfir að töluverð vinna hefði farið í það hjá henni að svara fyrir mál Sveinbjargar Birnu sem hún þekkti ekki neitt. Þarna styttist í að Sveinbjörg sneri aftur til starfa í borginni eftir fæðingarorlof. Hún vildi góð ráð hvernig hún ætti að bregðast við þegar Sveinbjörg kæmi aftur og sömuleiðis væri vandi á höndum vegna Panamaskjalanna. Aðstoðar væri þörf.

Mætti Viðar á fund Sigmundar Davíðs en Guðfinna og eiginmaður hennar, Svanur Guðmundsson, voru líka á fundinum. Sagði Guðfinna Sigmund hafa sagt á fundinum að Viðar „væri akkúrat maðurinn sem þyrfti.“

Í framhaldinu hitti Viðar fleira forystufólk hjá Framsókn, þ.á.m. núverandi ráðherra flokksins Lilju Alfreðsdóttur og Sigurð Hannesson, formann Samtaka iðnaðarins en þá formann málefnanefndar Framsóknarflokksins.

Nokkrum dögum síðar hitti Viðar Hrólf á Kaffi Mílanó í Skeifunni. Þar ræddu þeir hugsanlega aðkomu Viðars að kosningabaráttu Framsóknar. Mun Viðar hafa nefnt að sú kosningabarátta sem hann hefði í huga gæti kostað 100 milljónir króna.

Lýsti Viðar því fyrir dómi að Hrólfur hafi fengið „áfall“ við að heyra töluna. Í vitnisburði sínum fyrir dómi kvaðst Hrólfur hafa upplýst Viðar um það á fundinum að Framsóknarflokkurinn ætti ekki slíka fjármuni. Undir þetta tók Sigmundur Davíð fyrir dómi, að hugmyndin hefði ekki verið raunhæf hvað fjárhæðina varðaði.

Í framhaldinu hitti Viðar Sigmund Davíð aftur og í framhaldinu var ákveðið að gera þrjá hluti. Taka nýjar myndir af Sigmundi Davíð en ástæðan væri sú að myndir af forsætisráðherranum í tengslum við umfjöllun um Panamaskjölin hefðu verið mjög neikvæðar.

Bera kennsl á erfiðu blaðamennina

Í öðru lagi var smíðuð vefsíðan Panamaskjölin.is en þar átti Sigmundur að geta tekið til varna og vísað í síðuna yrði hann spurður út í málið. Að lokum hefði vefurinn islandiallt.is verið smíðaður en sá vefur hafi verið ætlaður til að sækja fram. Svanur, eiginmaður Guðfinnu, átti að vinna ákveðna greiningarvinnu, skoða hvaða blaðamenn væru að skrifa hvað og hverjir hefðu verið Sigmundi Davíð erfiðastir.

Viðar sagði Sigmund Davíð hafa beðið sig í framhaldinu um að skrifa bréf til framkvæmdastjórnar flokksins og lýsa fyrirhugaðri vinnu. Bréfið var sent framkvæmdastjórn flokksins 20. júlí 2016 og má sjá hér að neðan.

Úr bréfi Viðars sem hann sendi framkvæmdastjórn en fékk aldrei svar við.
Í bréfinu kemur meðal annars fram að Viðar ætti að heyra beint undir formann flokksins og hafa ritstjórnarvald á öllu auglýsinga- og kynningarefni flokksins. Tímagjald hans yrði tæpar 17 þúsund krónur að viðbættum virðisaukaskatti. Þá sé Viðari með öllu óheimilt að tjá sig við fjölmiðla og segja frá því í hverju starf hans sé fólgið. Bæði á meðan þjónustu stendur og eins eftir að henni lýkur.

„Með þessu bréfi er óskað eftir því við framkvæmdastjórn flokksins að hún veiti formanni heimild til að hefja samstarf við undirritaðan á ofangreindum forsendum,“ segir í niðurlagi bréfsins.

Í vinnu fyrir Sigmund eða Framsókn?

Fyrir dómi sagðist Sigmundur ekki minnast þess að hafa lesið bréfið en gæti þó ekki neitað því að hafa tekið við því. Hann hefði bent Viðari á að ganga frá málunum við framkvæmdastjóra flokksins. Einar Gunnar Einarsson gegndi þeirri stöðu til bráðabirgða á þessum tíma eftir að Hrólfur steig til hliðar.

Hrólfur lýsti því að á fundi þeirra Viðars á Kaffi Mílanó hefði ekki neitt verið rætt um að Viðar ynni verkefni fyrir flokkinn en Sigmundur Davíð hefði þó rætt að fá hann í vinnu. Sjálfur hefði hann ekki orðið var við neina vinnu af hálfu Viðars.

Könnuðust ekki við neina vinnu Viðars

Einar Gunnar og Eygló Harðardóttir, þáverandi ráðherra, sem áttu sæti í framkvæmdastjórn könnuðust ekki við bréfið sem Viðar sagðist hafa sent á stjórnina. Einar sagðist raunar hafa fyrst séð bréfið eftir að reikningur fyrir vinnunni barst í desember 2016. Hvorki Eygló né Sigurður Ingi Jóhannsson, sem tók við formennsku í flokknum eftir brotthvarf Sigmundar, könnuðust við nokkra vinnu af hendi Viðars.

Hluti þeirrar þjónustu sem Viðar krafði Framsóknarflokkinn um var vegna myndatöku á miðstjórnarfundi flokksins á Akureyri í byrjun september 2016. Aðeins voru teknar myndir af Sigmundi Davíð og unnin myndbönd fyrir hann.

Fór svo að Framsókn neitaði að greiða reikninginn en Sigmundur Davíð greiddi 1,1 milljón króna til Viðars vegna útlagðs kostnaðar, eins og samkomulag hafði verið milli þeirra um að hann greiddi ef innheimta Viðars gengi illa.

Raunar hafði Viðar tekið það loforð af Sigmundi í ljós þess að hann hefði slæma reynslu af því að innheimta skuldir hjá stjórnmálaflokkum.

Fékk ekki samþykki hjá Framsókn

Niðurstaða dómsins er nokkuð skýr. Enginn ágreiningur var um það í málinu að Viðar fékk ekki samþykki framkvæmdastjórnar Framsóknarflokksins eins og óskað var eftir í bréfinu sem hann sendi.

Bréfið sjálft bæri þess skýrlega með sér að aðilar gengju út frá því að samþykki framkvæmdastjórnar væri forsenda til að Viðar myndi starfa fyrir flokkinn.

Ekki væri séð að Viðar hefði getað verið í góðri trú um að Sigmundur Davíð hefði sem formaður flokksins einn umboð til að stofna til þess konar skuldbindinga fyrir flokkinn.

Skýrt er í lögum flokksins að framkvæmdastjóri á að „stýra skrifstofu flokksins og fjármálum hans í samráði við framkvæmdastjórn“.

Var Framsóknarflokkurinn sýknaður af kröfu Viðars Guðmundssonar og almannatengslafyrirtæki hans, Forystu. Dóminn í heild má lesa hér.

Að neðan má sjá eitt af þremur myndböndumsem unnin voru af verktaka sem Viðar Garðarsson fékk til verksins haustið 2016. Myndbandið var birt á Facebook-síðu Sigmundar Davíðs.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.