Innlent

Aðstoðarþjálfari ÍBV gisti fangageymslur eftir bikarfögnuðinn

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Eyjamenn brosmildir á gólfinu í Laugardalshöll. Sigurður Bragason er annar frá hægri og Theodór númer 23 í neðri röð.
Eyjamenn brosmildir á gólfinu í Laugardalshöll. Sigurður Bragason er annar frá hægri og Theodór númer 23 í neðri röð. Vísir/Valli
Sigurður Bragason, aðstoðarþjálfari nýkrýndra bikarmeistara ÍBV í handbolta og fyrrverandi leikmaður félagsins, var færður í fangageymslur í Vestmannaeyjum aðfaranótt sunnudags vegna gruns um líkamsárás á lykilmann liðsins, hornamanninn Theodór Sigurbjörnsson.

ÍBV vann öruggan átta marka sigur á Fram í úrslitaleik bikarsins á laugardaginn og voru fagnaðarlætin í Laugardalshöll mikil. Theodór var í lykilhlutverki, eins og í undanúrslitunum gegn Haukum á föstudag, og skoraði sjö mörk í leiknum. Fóru Eyjamenn til Heimaeyjar eftir leik þar sem fögnuður hélt áfram fram á nótt.

Lögreglan í Vestmannaeyjum staðfestir í samtali við Vísi að karlmaður hafi verið handtekinn aðfaranótt sunnudags vegna mögulegrar líkamsárásar og gist fangageymslur. Honum var sleppt eftir skýrslutöku á sunnudeginum.

Samkvæmt heimildum Vísis hlaut hornamaðurinn skurð fyrir ofan augað vinstra megin. Ber hann þess merki en hann þurfti að leita aðstoðar læknis til að hlúa að sárununum.

Ekki hefur náðst í Írisi Róbertsdóttur, formann ÍBV, Karl Haraldsson, formann handknattleiksdeildar eða Arnar Pétursson, þjálfara ÍBV, í morgun þrátt fyrir endurteknar tilraunir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×