Lífið

Aldrei fleiri erlendir gestir á Sónar

Stefán Árni Pálsson skrifar
Dúndrandi reif í bílakjallaranum í Hörpu er fastur liður Sónarhátíðarinnar.
Dúndrandi reif í bílakjallaranum í Hörpu er fastur liður Sónarhátíðarinnar. Vísir/Andri Marinó
Sónar Reykjavík kynnir í dag síðustu listamennina sem bætast við dagskrá hátíðarinnar sem fram fer í Hörpu dagana 16. og 17. mars. Þegar hefur verið tilkynnt að Underworld, ein stærsta hljómsveit heims á sviði danstónlistar, Danny Brown, TOKiMONSTA, Lindström, Nadia Rose, Denis Sulta og Ben Frost komi fram á hátíðinni ásamt rjómanum af því besta sem íslenskt tónlistarlíf hefur upp á að bjóða.

GusGus frumflytur efni af nýrri breiðskífu sinni, Lies are More Flexible, á Sónar Reykjavík 2018. Breski trap meistarinn TroyBoi er á leiðinni til landsins og kemur fram á hátíðinni. Kiasmos snýr aftur á hátíðina og býður upp á DJ-sett. Null + Void er listamannanafn Kurt Uenala. Uenala hefur fram til þessa unnið mestmegnis á bakvið tjöldin með listamönnum á borð við Depeche Mode, Moby og The Kills. Nýverið gaf hann út breiðskífuna Cryosleep sem vakið hefur verðskuldaða athygli.

Aðrar nýjar viðbætur við dagskrá hátíðarinnar eru; Sykur, Cyber, Elli Grill og Bríet sem kemur fram á einum af sínum fyrstu tónleikum á Sónar Reykjavík 2018. Líkt og undanfarin ár er lögð áhersla á að bjóða upp á nýja og spennandi tónlist frá upprennandi listafólki, innlendu sem og erlendu. Meðal annars í samvinnu við Red Bull Music Academy á einu af fjórum sviðum hátíðarinnar; SonarComplex í Kaldalóni.

Fyrirpartý fyrir hátíðina verða haldin dagana 14. og 15. mars og fara fram í Lucky Records, Húrra og Gamla Nýló. Kjörið er að hefja skemmtunina þar og koma sér í hátíðargírinn. Nánari dagskrá má nálgast á www.sonarreykjavik.com.

„Aldrei hafa fleiri erlendir gestir keypt sér miða á Sónar Reykjavík eins og fyrir hátíðina í ár. Áhugi á Sónar Reykjavík, og þeim íslensku listamönnum sem þar koma fram, hefur aukist mikið undanfarin misseri. Sónar Reykjavík var nýlega valin ein af bestu tónlistarhátíðum í Evrópu af tímaritinu Time Out, The Guardian og The Observer telja hana eina af þeim bestu í heimi til að skemmta sér á og dagblaðið Metro vísaði til hátíðarinnar sem eins af “heitustu” stöðum álfunnar,“ segir í tilkynningunni frá Sónar Reykjavík.

Listamennirnir sem koma fram á Sónar Reykjavík 2018 koma frá öllum heimshornum, m.a. Perú (CAO), Kólumbíu (Julián Mayorga), Ítalíu (Lorenzo Senni) og Frakklandi (Lafawndah). Þetta er í takt við dagskrá síðasta árs þar sem m.a. komu fram listamenn frá Kína og Japan.

Listamenn sem koma fram á Sónar Reykjavík 2018 eru: Andartak, Árni Skeng, Bad Gyal (ES), Ben Frost (AU/IS), Bjarki, Blissful, Bríet, CAO (PE), Cassy b2b Yamaho (US/IS), Cold, Countess Malaise, Cyber, Danny Brown (US), Denis Sulta (UK), Elli Grill, EVA808, Flóni, GusGus, Hildur Guðnadóttir, Högni, Intr0beatz, Jasss, jlin, the Joey Christ show, JóiPé x Króli, Jónbjörn, Julián Mayorga (PE), Kiasmos, Klein (UK), Kode 9 x Kōji Morimoto av (UK/JP), Lafawndah (FR), Lena Willikens (DE), Lindstrøm (NO), Lorenzo Senni (IT), Lord Pusswhip, Mighty Bear, Moor Mother (US), Nadia Rose (UK), Null + Void (CH/US), Reykjavíkurdætur, serpentwithfeet (US), Silvia Kastel (IT), Simon Fknhndsm, Sunna, Sykur, TOKiMONSTA (US), Troyboi (UK), Underworld, Volruptus, Vök og Yagya.

Sónar Reykjavík fer fram dagana 16. og 17. mars á fjórum sviðum í Hörpu. Alls verður boðið upp á tónleika rúmlega 50 hjómsveita og listamanna á hátíðinni, m.a. í bílakjallara hússins sem breytt verður í næturklúbb.

Aldarfjórðungs afmæli Sónar verður fagnað á hátíðinni í Reykjavík. Sónar hófst í Barcelona árið 1994 og síðan hafa Sónar hátíðir farið fram á nokkrum vel völdum stöðum í heiminum. Fyrsta Sónar hátíð ársins 2018 fer fram á Íslandi. Í kjöfar Sónar Reykjavík fara síðan fram Sónar hátíðir í Hong Kong, Istanbul, Barcelona, Bogotá og Buenos Aires síðar á árinu.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.