Bíó og sjónvarp

Segir sögur íslenskra burðardýra: Erfitt að reyna að setja sig í þessi spor

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Daníel Bjarnason leikstýrir þáttunum Burðardýr sem fjalla um fólk sem hefur flækst inn í heim alþjóðlegs fíkniefnasmygls.
Daníel Bjarnason leikstýrir þáttunum Burðardýr sem fjalla um fólk sem hefur flækst inn í heim alþjóðlegs fíkniefnasmygls. Samsett/Ingvar Haukur/Getty

„Þættirnir fjalla um fólk úr íslenskum veruleika sem hefur flækst inn í heim alþjóðlegs fíkniefnasmygls. Þetta er fólkið á bak við fyrirsagnirnar sem við höfum svo of oft séð, fólkið sem við köllum burðardýr. Þau segja okkur sögur sínar og draga ekkert undan,“ segir Daníel Bjarnason leikstjóri heimildaþáttaraðarinnar Burðardýr.

Þættirnir eru framleiddir af Skot Productions fyrir Stöð 2 og fyrsti þáttur af sex verður sýndur sunnudagskvöldið 21. janúar næstkomandi.

„Þættirnir byggja á viðtölum þar sem leikin atriði styðja við frásagnirnar. Ég fékk aðstoð við þróun þáttanna frá leikstjóranum Olaf de Fleur, sem einnig tók leikstjórn á leiknum atriðum tveggja þátta.“

Daníel við tökurIngvar Haukur Guðmundsson

Fólk dómhart í daglegu tali

Daníel segir að hann hafi fengið hugmyndina eftir að hann gerði heimildaþættina Málið fyrir nokkrum árum.

„Þeir tóku fyrir margvísleg mál í íslensku þjóðfélagi. Eitt af þeim var undirheimar og þar með burðardýr. Við fundum mjög margar sögur við vinnslu þeirra þátta og þess vegna datt mér í hug að það væri vel hægt að gera heila þáttaröð þar sem eingöngu yrði fjallað um burðardýr. Þess utan finnst mér fólk oft vera of dómhart í daglegu tali og þess vegna langaði mig að setja andlit á þessar fyrirsagnir, það er alltaf ástæða fyrir því að fólk fer þessa leið, að smygla fíkniefnum, ekki eingöngu til að borga skuldir heldur geta ástæðurnar verið margskonar. Þú þarft ekki meira en að taka eina vitlausa beygju, sem næstum hver sem er getur lent í, og þá ertu kominn í aðstæður sem er mjög erfitt að koma sér út úr.“

Við tökur á Burðardýr.Ingvar Haukur Guðmundsson

Gekk misvel að fá fólk til að stíga fram

Þættirnir Burðardýr hafa verið í framleiðslu frá því í mars á síðasta ári en ferðast var bæði innanlands og til London, Portúgal og Brasilíu við gerð þáttanna. Daníel segir að það hafi tekist misvel að fá fólk til þess að segja sína sögu í þættinum.

„Ég fékk Auði Ösp Guðmundsdóttur, rannsóknarblaðamann, til að kafa í málin en flestir viðmælendur voru tryggðir í gegn um hana. Hún sat sveitt í marga mánuði að hafa uppi á fólki, fá já eða nei og skrifa sögur þeirra frá A til Ö. Hennar kraftar voru ómetanlegir í þessu verkefni.

Einnig var framleiðandi þáttanna, Kristín Andrea Þórðardóttir, hrikalega öflug í að láta þetta allt ganga upp og sjá til þess að allt væri geranlegt.“

Magnús Ingvarsson við tökur á Burðardýr

Átakanlegar sögur

Það kom þó oft fyrir að fólk hætti við að taka þátt og treysti sér ekki til þess að segja sína sögu. Þrír af sex einstaklingunum sem segja sögu sína í þáttunum, koma ekki fram undir nafni og eru skyggðir til að andlit þeirra sjáist ekki.

„En það gerðist nokkrum sinnum að fólk sagði já, var tilbúið að segja sögu sína og fannst þetta spennandi. Svo þegar á hólminn var komið og komið var að því að rifja alla söguna upp, þá var bakkað út. Ég skil það vel því allar eru sögurnar gríðarlega átakanlegar.“

Á meðal þeirra sem koma fram undir nafni í þáttunum eru Kalli Bjarni og Ragnar Erling.

Á meðal þeirra sem segja sögu sína í þáttunum eru Ragnar Erling Hermannsson sem í maí árið 2009, þá 24 ára gamall, var tekinn með tæplega sex kíló af kókaíni í farangri sínum á alþjóðaflugvellinum í Recife í Brasilíu.Fréttablaðið

Auðvelt að láta eins og þetta sé ekki til

Það sem kom mér á óvart var að viðmælendur okkar eiga ótrúlega margt sameiginlegt úr æsku. Við tókum fjögurra til fimm klukkustunda viðtöl við þá og vorum fljót að sjá að æskumynstrin voru svipuð. Þetta fékk mig til hugsa mikið um hversu mikilvæg uppvaxtarárin eru og hvernig þau móta mann.“ 

Daníel vonar að þessir þættir hjálpi við að dýpka skilning fólks á einstaklingum sem lenda í þessum aðstæðum.

Það sem var erfiðast var að reyna að setja sig í þessi spor. Að ímynda sér líðan þessara einstaklinga. Að hlusta á þessar sögur og skilja þennan heim sem er svo langt frá því sem maður þekkir. Það er svo auðvelt að loka augunum og láta eins og þetta sé ekki til, ekki á Íslandi. En það er bara ekki raunin.“  Vonar hann einnig að þættirnir virki sem forvörn að einhverju leyti.

„Ég veit að þegar manneskja er langt leidd inn í þennan heim þá er fátt sem stoppar hana. En ef þessi þáttur getur verið einn hlekkur í keðju sem hjálpar fólki að komast á rétta braut, þá get ég gengið sáttur frá verkefninu.“

Stiklu fyrir þættina Burðardýr má sjá hér að neðan.


Tengdar fréttir

Íslenskir dópsmyglarar í Brasilíu: Fjórir teknir á fjórum árum

Ragnar Erling Hermannsson sem handtekinn var í borginni Recife í Brasilíu á föstudagskvöldið fyrir innflutning á tæpum sex kílóum af kókaíni er ekki fyrsti íslendingurinn sem handtekinn er fyrir fíkniefnasmygl þar í landi. Frá því í júní 2006 hafa þrír aðrir íslendingar verið handteknir vegna fíkniefnasmygls, ýmist á leið úr landi eða inn í landið. Íslendingarnir hafa verið með kókaín, hass og barnapúður og voru allir dæmdir til fangelsisvistar í landinu.

Þakklátur fyrir að vera á lífi

Ragnar Erling Hermannsson var handtekinn árið 2009 í Brasilíu með tæplega sex kíló af kókaíni í fórum sínum. Hann er kominn aftur til landsins, þakklátur fyrir að fá annað tækifæri.


Fleiri fréttir

Sjá meira


×