Verkið er kapphlaup við tímann áður en leiktíðin í Inkasso-deildinni í knattspyrnu hefst í næsta mánuði, en fyrsti heimaleikur Víkings er settur 12. maí næstkomandi.
Þrátt fyrir að útlitið gefi til kynna að langur vegur sé frá því að völlurinn sé leikhæfur eru Þorsteinn Haukur og Víkingar hans bjartsýnir á að það takist að ljúka verkinu fljótt og örugglega. Ef það klikkar hefur hann gert ráðstafanir til að bregðast við því.

Gangi það eftir myndi félagið kaupa sér tíma til að ljúka framkvæmdum og yrði þá fyrsti leikur gegn Selfossi í byrjun júní, um sjómannadagshelgi.
„Við eigum bara þennan eina heimaleik í maí samkvæmt skipulaginu. Við byrjum þá bara á fjórum útileikjum og tökum svo á móti Selfyssingum, vonandi á fullum velli.“
Víkingar ákváðu í fyrra að skipta yfir í gervigrasvöll, en sem fyrr segir hafa vetrarhörkurnar tafið framkvæmdir. Þorsteinn Haukur segir Víkinga spennta fyrir gervigrasinu og að það geti reynst mikil bót fyrir félagið.
„Við búum við það að liðið hefur mátt æfa á parketti frá september og fram í apríl yfir vetrartímann en við bindum vonir við að gervigrasið muni kannski lengja það tímabil sem við getum æft og spilað úti.“