Það er best fyrir þig að halda jafnvægi og athuga að þótt þú hafir unnið sigra og beðið ósigra þá þarf að jafna þá út, því þá kemur vellíðanin inn. Þetta líf er eitt völundarhús og þú munt aldrei sjá útkomuna, það eina sem þú getur stjórnað er tilfinningin sem þú hefur í deginum í dag.
Þú ert mjög heppið að vera í þessu merki því að þér er gefinn afgerandi kraftur, þess vegna er mjög mikilvægt fyrir þig að hafa marga bolta á lofti, að gefa sjálfu þér marga möguleika.
Það er alveg á hreinu að enginn mun gleyma þér. Taktu áhættu þótt þú sért hrætt Ljón og aldrei búast við því að fá þakklæti þó að þú gefir, því fylgir það frelsi sem þig vantar. Þú verður alltaf, hvort sem þú vilt eða ekki, áberandi persóna og leiðtogi þeirra sem eru nálægt þér.
Þú býrð yfir orku til að senda frá þér strauma sem fáir standast. Þú átt eftir að vera í essinu þínu seinni part sumars og straumar þínir munu magnast og gera þér kleift að vera hið eina sanna þú. Það er margt búið að gerast sem hefur verið erfitt, en þú ert fallegasti kötturinn sem hefur níu líf og munt alltaf lenda á fjórum fótum. Þú hefur svo mikinn sjarma og þú getur fengið þann sem þú vilt í ástalífinu, en það þarf að vera persóna sem dýrkar þig og dáir og ber þig á höndum sér, ekkert minna gengur fyrir þig.
Mottóið þitt er: Ekkert mun stoppa mig því ég er Ljónið.
Ást og friður, Sigga Kling
Fræg Ljón: Cara Delevingne fyrirsæta, Ágústa Eva Erlendsdóttir, leik- og söngkona, Halldóra Geirharðsdóttir leikkona, Birgitta Haukdal söngkona, Barack Obama Bandaríkjaforseti, Ásdís Rán fyrirsæta, Gísli Gíslason geimfari, Geir Ólafsson söngvari, Þórunn Antonía alheimsstjarna, Albert Eiríks, matgæðingur af bestu sort, Jón Óttar Ragnarsson, athafna- og fjölmiðlamaður, Jennifer Lopez söngkona, Diddú, Sirrý Arnardóttir fjölmiðlakona, Arnór Dan, söngvari, Agent Fresco, Ana Mafalda, besta húshjálp í heimi, Sema Erla Serdar, baráttukona, Rósa Ingólfsdóttir, sjónvarpskona, Anton Máni Svansson, kvikmyndaframleiðandi.