Innlent

Stuðningsmenn Katrínar fagna nýrri könnun

Jakob Bjarnar skrifar
Berglind og aðrir stuðningsmenn Katrínar vildu, eftir það sem á undan er gengið, vita hvort Katrín væri ekki enn jafn vinsæl og áður og það er nú komið á daginn.
Berglind og aðrir stuðningsmenn Katrínar vildu, eftir það sem á undan er gengið, vita hvort Katrín væri ekki enn jafn vinsæl og áður og það er nú komið á daginn.
Sérstakur stuðningsmannahópur Katrínar Jakobsdóttur, formann VG, vildu kanna hvort ekki væri enn sami stuðningur við hana og áður hefur verið og fengu Zenter til að gera könnun um viðhorf landsmanna til þess hver ætti að verða næsti forsætisráðherra Íslands.

Könnunin var gerð á dögunum 10.-21. nóvember og var úrtakið 2048 manns. Spurt var: „Hvern eftirfarandi myndir þú vilja sjá sem næsta forsætisráðherra Íslands?“ og gátu svarendur valið úr hópi forystumanna íslenskra stjórnmálaflokka.

Í tilkynningu frá hópnum segir: „Af þeim sem tóku afstöðu vildu 49,5% svarenda sjá Katrínu Jakobsdóttur sem næsta forsætisráðherra en næst á eftir vildu 20,5% sjá Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins og svo 10,2% Sigurð Inga Jóhannsson, formann Framsóknarflokksins. Aðrir forystumenn fengju minna en 10%.“

Ánægð með niðurstöðuna

Vísir ræddi við talsmann hópsins, Berglindi Häsler, og innti hana eftir ástæðunni fyrir því að ráðist var í að kanna þetta sérstaklega? Berglind segir að þau hafi viljað athuga hver stuðningur við Katrínu væri nú „eftir það sem á undan er gengið,“ eins og hún orðar það. Og er þá að vísa til óánægju með yfirstandandi stjórnarmyndunarviðræður sem hefur sýnt sig, bæði innan VG og hjá vinstra fólki almennt.

„Já, og athuga hvernig stemmningin væri í samfélaginu og enn þessi stuðningur við hana sem verið hefur. Og það er greinilegt. Ekkert að slá á það.“

Berglind segist ekki vilja negla neitt niður um hvernig beri að túlka könnunina að öðru leyti en metur það þó sem svo að þarna sé vísbending um að stuðningur sé enn til staðar þrátt fyrir hinar umdeildu viðræður. Hún vill ekkert gefa út á það hvort þessar niðurstöður séu með þeim hætti að vert sé að hafa með sér þegar stór hópur sem kemur saman á flokkráðsfund á miðvikudag til að yfirfara drög að stjórnarsáttmála Vinstri grænna, Framsóknar og Sjálfstæðisflokks.

„Nei, nú þurfum við bara að sjá hvernig samningur verður borinn á borð. Svo verður afstaða tekin í kjölfarið.“

Vísbending um jákvæðni gagnvart stjórnarsáttmála

Berlind segir að þessi niðurstaða hafi ekki komið sér á óvart. Spurð um hvaða hópur þetta væri, nánar tiltekið, sem að könnuninni stæði segir Berglind að um sé að ræða hóp sem „styður Katrínu í þessum samningaviðræðum, eins langt og það nær. Við höfum sagt að við treystum henni fullkomlega að fara í gegnum þetta ferli og haldi hugsjónum hreyfingarinnar á lofti í því. Þetta er ákveðinn hópur sem treystir henni fullkomlega og öðrum í forystunni. Þetta er reynslumikið fólk.“

Umræddur stuðningsmannahópur er stór, að sögn Berglindar, fólk um allt land sem stendur við bak Katrínar og margir þar á meðal sem eru að fara að mæta á flokksráðsfundinn til að fjalla um stjórnarsáttmálann.

Segir í lagi að spara stóru orðin um Katrínu

Berglind vill ekki svara því játandi að könnunin megi heita til marks um ugg innan VG. „Nei, get ekki sagt það. En, það er gott að vita að við séum að fara í rétt átt. Að það sé ekki ennþá stuðningur.“

Vísir greindir frá því að Kolbeinn Óttarsson Proppé þingmaður er ósáttur við það sem hann telur ómaklegar árásir á Katrínu, að hún sé vænd um óheilindi og lygar. Hann hlaut bágt fyrir á Facebook. Berglind vill ekki taka undir með Kolbeini án fyrirvara.

„Mér finnst bara allt í lagi að skoða þetta mál, leyfa henni að klára þetta verkefni. Spara stóru orðin þar til þetta liggur fyrir. En fólki er náttúrlega frjálst að hafa sínar skoðanir og maður verður að þola svona skoðanaskipti.“


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.