Innlent

Tveir menn grunaðir um að ráðast á fimm ára barn í Reykjavík

Birgir Olgeirsson skrifar
Tveir menn eru í haldi lögreglu vegna málsins og verða yfirheyrðir síðar í dag.
Tveir menn eru í haldi lögreglu vegna málsins og verða yfirheyrðir síðar í dag. Vísir
Tveir karlmenn um þrítugt eru í haldi lögreglunnar grunaðir um að hafa veist að dreng á fimmta aldursári í miðborg Reykjavíkur á sjötta tímanum í gær. Drengurinn sat í barnastól í aftursæti bíls sem móðir hans ók.

Konan var stödd á rauðu ljósi við gatnamót Laugavegs og Snorrabrautar þegar tveir menn í annarlegu ástandi gengu að bílnum. Annar þeirra er sagður hafa rifið upp hurð bílsins og hrópaði þá konan á þá að loka dyrunum og koma sér í burtu. Lögreglan segir mennina hafa orðið við því.

Þegar konan var komin neðar á Laugaveginn áttaði hún sig á því að hin hurðin hafði einnig verið rifin upp og sér þá að sonur hennar er alblóðugur í framan og virðist hafa verið laminn í andlitið.

Guðmundur Pétur Guðmundsson, lögreglufulltrúi á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við Vísi að mennirnir hefðu verið handteknir stuttu síðar og hefðu verið mjög erfiðir við handtökuna.

„Það þurfti að beita töluverðu valdi því þeir voru erfiðir,“ segir Guðmundur og nefnir að átta lögreglumenn hafi komið að málinu.

Mennirnir eru sem fyrr segir um þrítugt en Guðmundur segir lögreglu kannast við þá.

Þeir verða yfirheyrðir síðar í dag.

Samkvæmt heimildum Vísis slasaðist barnið ekki alvarlega en er í miklu áfalli.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.