
Jón Magnús segir einnig að slysin séu alvarlegri þar sem líkur eru á að börn jafni sig aldrei að fullu eftir þessi slys. „Bæklunarlæknar okkar eru sammála um að endurtekin alvarleg trampólínslys hafa aukist mjög mikið í haust. Þá erum við að tala um alvarleg beinbrot og höfuðáverka. Börn sem hafa lent í þeim slysum hafa sum þurft á aðgerð að halda þar sem ekki er útséð með að börnin nái sér að fullu.“
Fréttablaðið reyndi að leita skýringa hjá fyrirtækinu. Framkvæmdastjórinn sagði að eigandinn svaraði spurningum sem þessum. Þegar fréttmaður óskaði þess að fá samband við eigandann eða fá símanúmer hans var símtalinu slitið.
Herdís Storgaard hjá Slysavarnahúsi segist hafa fengið nokkrar athugasemdir frá foreldrum eftir viðskipti við fyrirtækið.
„Ný afþreying fyrir börn og fullorðna sprettur hratt upp um þessar mundir og því þurfa stjórnvöld að hlúa mun betur að þessum málaflokki. Ég hins vegar fullyrði að stjórnvöld hafa engan áhuga á slysavörnum á Íslandi í dag, það er miður,“ segir Herdís.
„Ég hef fengið þó nokkrar ábendingar um þetta fyrirtæki frá foreldrum. Vandamálið er hins vegar stjórnvalda. Kröfur þeirra eru takmarkaðar og áhuginn virðist vera lítill.“