Innlent

Fjórir gripnir glóðvolgir á Selfossi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Fjórir gistu fangageymslur á Selfossi í nótt vegna málsins.
Fjórir gistu fangageymslur á Selfossi í nótt vegna málsins. Vísir/Eyþór
Lögreglumenn á Suðurlandi handtóku í gær fjóra  einstaklinga með ríkisfang í Georgíu grunaða um að hafa verið að stela í verslunum á Selfossi. Mennirnir voru yfirheyrðir í gær og í morgun en verður að líkindum sleppt síðdegis.

Í tilkynningu frá lögreglunni segir að þrír mannanna hafi stöðu hælisleitenda á Íslandi en einn kvaðst vera ferðamaður hér. Sá framvísaði félagsskírteini sem hann sagði vera frá International police associaton (IPA) en hann væri lögreglumaður í heimalandi sínu.  

Í fórum mannanna fundust, auk ætlaðs þýfis, kvittanir fyrir sendingum peninga frá Íslandi á síðustu tveimur dögum sem nemur hundruðum þúsunda króna.   

Lögreglan segir öflug öryggismyndavélakerfi verslana hafa reynst mjög vel við rannsóknina. Þá kemur fram að grunur leiki á að mennirnir hafi stundað iðju sína í verslunum á höfuðborgarsvæðinu einnig. Við rannsóknina hefur lögreglan notið aðstoðar Alþjóðadeildar ríkislögreglustjóra.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×