Innlent

Stakk af í miðju samtali við lögregluna

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Ökumaðurinn náði ekki að hrista af sér lögreglubílinn.
Ökumaðurinn náði ekki að hrista af sér lögreglubílinn. VÍSIR/EYÞÓR
Ökumaður, sem lögreglan hafði afskipti af á fjórða tímanum í nótt, reyndi að stinga af í miðju samtali við lögreglumenn. Maðurinn hafði verið stöðvaður á Höfðabakka í Reykjavík en grunur leikur á að hann hafi verið undir áhrifum fíkniefna. Þegar lögreglumenn tóku að ræða við manninn steig hann á bensíngjöfina og hófst þá eftirför sem lauk í Hraunbæ. Málalyktir eru ekki reifaðar í skeyti lögreglunnar.

Lögreglan hafði að sama skapi afskipti af einstaklingum í Vesturbæ Reykjavíkur sem sagðir voru „líklega í innbrotshugleiðingum,“ eins og það er orðað. Við leit fundust á þeim eggvopn og fíkniefni sem allt var haldlagt af lögreglu. Ekki fara sögur af því hvort einstaklingarnir hafi brotist inn einhvers staðar.

Þá var ráðist á mann á knæpu í Hafnarfirði skömmu eftir miðnætti. Einn var handtekinn vegna málsins og er það nú til rannsóknar.

Alls komu 16 mál inn á borð lögreglunnar í nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×