Lífið

Hver er Meghan Markle?

Atli Ísleifsson skrifar
Meghan Markle í þáttunum Suits.
Meghan Markle í þáttunum Suits. Vísir/Getty
Breska konungsfjölskyldan upplýsti í morgun að Harry prins, sonur Karls Bretaprins og Díönu prinsessu, hafi trúlofast bandarísku leikkonunni Meghan Markle. Þau munu ganga í hjónaband á vordögum 2018.

Prinsinn greindi fyrst opinberlega frá sambandi þeirra Markle í nóvember á síðasta ári og varð Markle í kjölfarið sú leikkona sem oftast var slegin inn í leitarvél Google í Bretlandi árið 2016.

Markle heitir Rachel Meghan Markle fullu nafni og er einna þekktust fyrir leik sinn í þáttunum Suits þar sem hún fór með hlutverk Rachel Zane. Markle er 36 ára gömul, fæddist 4. ágúst 1981 í Los Angeles, en hefur búið í Toronto í Kanada síðustu árin.

Skreytti boðskort

Í grein BBC um leikkonuna segir að hún hafi stundað nám í einkareknum grunnskóla áður en hún fór í rómversk kaþólskan háskóla. Seinna meir útskrifaðist hún úr Northwestern University School of Communication í Illinois, um svipað leyti og leiklistarferill hennar var að hefjast.

Í viðtölum hefur hún sagt að á milli áheyrnarprufa hafi hún unnið fyrir sér með því að skreyta boðskort í brúðkaup, en hún hafði með árunum þróað mikla færni í skrautskrift.

Faðir Markle, Thomas W. Markle, hefur sjálfur starfað við gerð sjónvarpsþátta en hann var meðal annars ljósamaður á setti við gerð þáttanna Married… with Children á níunda áratugnum. Faðir hennar er af írskum og hollenskum uppruna, en móðir hennar, Doria Ragland, starfar sem sálfræðingur. 

Fyrsta hlutverk Markle í sjónvarpi var í þáttunum General Hospital árið 2002. Síðar fékk hún hlutverk í þáttum á borð við CSI, Without a Trace, Castle og Fringe. Einnig hefur hún komið fram í kvikmyndum á borð við Get Him To The Greek, Remember Me og Horrible Bosses. Nánar má lesa um leiklistarferil hennar á síðu imdb.

Giftist árið 2011

Markle gekk að eiga kvikmyndaframleiðandann Trevor Engelson í september 2011 eftir um sjö ára samband, en þau skildu tveimur árum síðar. Engelson framleiðir nú nýjan sjónvarpsþátt sem byggir á forræðisdeilu manns við fyrrverandi eiginkonu sína sem giftist meðlimi bresku konungsfjölskyldunnar.

Markle ritstýrði um þriggja ára skeið vefsíðu sinni, The Tig, en síðunni var lokað í apríl síðastliðinn. Á síðunni var meðal annars fjallað um mat, förðun, tísku og ferðalög. Segir Markle að með síðunni hafi hún vilja stuðla að valdeflingu kvenna.

Meghan Markle og Harry prins á Invictus Games í september 2017.Vísir/Getty
Fyrr á árinu vakti pistil Markle á síðunni athygli þar sem hún ræddi um rasisma sem hún hafi orðið fyrir, en faðir hennar er hvítur og móðir svört. Sagðist hún hafa þurft að þola árásir vegna húðlitar síns og að hún hafi hann haft áhrif á hvaða hlutverk hún fengi og hvaða ekki. Hafi Markle oft ekki þótt nógu svört fyrir „svörtu hlutverkin“ og ekki nógu hvít fyrir þau „hvítu“.

Sendi Clinton bréf ellefu ára gömul

Markle er mjög virk á samfélagsmiðlum þar sem hún er með um tvær milljónir fylgjenda á Instagram og um 390 þúsund fylgjendur á Twitter.

Markle hefur einnig gegnt hlutverki sendiherra stofnunarinnar World Vision Canada sem berst fyrir réttindum barna til menntunar, næringar og heilbrigðisþjónustu.

Þá hefur hún einnig barist fyrir aukni kynjajafnrétti. Fræg er sagan af því þegar Markle, sem þá var ellefu ára, ritaði Hillary Clinton, þáverandi forsetafrú, og fleirum bréf vegna auglýsingar sápuframleiðanda sem hún vildi meina að sendi þau skilaboð að konur ættu heima í eldhúsinu. Sápuframleiðandinn breytti í kjölfarið auglýsingunni.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×