Innlent

Finnar sólgnir í skyr

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Mikil nýsköpun er í skyrframleiðslu í Finnlandi samkvæmt Kristínu Aðalbjörgu Árnadóttur, sendiherra.
Mikil nýsköpun er í skyrframleiðslu í Finnlandi samkvæmt Kristínu Aðalbjörgu Árnadóttur, sendiherra. Vísir
Kristín Aðalbörg Árnadóttir, sendiherra Íslands í Finnlandi segir að íslenska skyrið sé að verða vinsælasti hádegisbitinn hjá finnsku fólki. Mikið sé um nýsköpun og bragðtegundirnar í tuga tali.

„Skyrið sló bara hreinlega í gegn hér í Finnlandi fyrir um fimm til sex árum síðan. Nú er mest neysla per íbúa á Skyri í Finnlandi af öllum löndum ef frá er talið Ísland,“ segir Kristín Aðalbjörg.

Kristín ræddi við Arnar Björnsson íþróttafréttamann sem staddur er í Helsinki vegna evrópukeppninnar í körfubolta.

„Hér er gríðarlega mikill markaður og miklar vinsældir, þeir anna ekki eftirspurn,“ segir Kristín.

Töluvert fleiri bragðtegundir eru á boðstólnum af skyri í Finnlandi en hérlendis.

„Hér er mikil nýsköpun í gangi. Það eru á boðstólnum held ég 34 bragðtegundir af skyri hér í Finnlandi. Skyr bragðbætt með alls konar ávöxtum og jafnvel súkkulaði,“ segir Kristín.

„Þetta er að verða vinsælasti hádegisbitinn hjá finnsku fólki.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×