„Rannsókninni miðar mjög vel og við erum raunverulega langt komin,“ segir Grímur Grímsson, yfirmaður miðlægrar deildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, um rannsókn á líkamsárás sem olli dauða Arnars Jónssonar Aspar í Mosfellsdal þann 7. júní.
Jón Trausti Lúthersson sem úrskurðaður var í fjögurra vikna gæsluvarðhald í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir helgi, grunaður um aðild að manndrápi í Mosfellsdal í byrjun mánaðarins, var látinn laus úr gæsluvarðhaldi í gær. Fjórum hafði áður verið sleppt úr haldi.
Hálstak er talinn aðalþátturinn í því sem leiddi Arnar til dauða, samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum krufningar. Þetta kemur fram í gæsluvarðhaldsúrskurði Hæstaréttar yfir Sveini Gesti Tryggvasyni sem grunaður er um að hafa tekið Arnar hálstaki.
Þá eru upptökur af árásinni úr snjallsímaforritinu Snapchat á meðal gagna málsins.
Grímur segist ekki geta svarað hvort vitnavernd verði aukin eftir að Jóni Trausta var sleppt.
„Þetta er atriði sem við höfum ekki viljað fara í neinar nákvæmnislýsingar á, hvernig þessu er háttað. Ég vil ekkert svara þessari spurningu í hvoruga áttina.“ Hann getur ekkert sagt til um hvenær málið muni fara fyrir dóm.
Rannsókn á manndrápi langt komin

Tengdar fréttir

Snapchat-upptökur af árásinni í Mosfellsdal
Hálstak er talinn aðalþátturinn í því sem leiddi Arnar Jónsson Aspar til dauða, samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum krufningar.

Jón Trausti laus úr gæsluvarðhaldi
Hæstiréttur féllst ekki á áframhaldandi gæslu.