Lífið

Skreið beinbrotin upp stigann

Kristjana Björg Guðbrandsdóttir skrifar
Ásdís Rán ákvað að flytjast til Íslands vegna þess að henni fannst aðstæður ytra ótryggar.
Ásdís Rán ákvað að flytjast til Íslands vegna þess að henni fannst aðstæður ytra ótryggar. Visir/Stefán
Athafnakonan Ásdís Rán Gunnarsdóttir hefur alla tíð haft nóg fyrir stafni. Nú þarf hún hins vegar að taka öllu með ró og einbeita sér að einföldum markmiðum. Hún er bundin við hjólastól eftir alvarlegt slys, er rétt svo farin að styðja sig við hækjur í styttri tíma. Fram undan er viðamikil endurhæfing sem tekur allan hennar tíma. Hversdagurinn er krefjandi verkefni.

Meðvitundarlaus eftir fallið

„Dagurinn byrjaði á því að reyna að komast fram úr, það er töluvert flóknara núna og tekur allt miklu lengri tíma en áður. Þetta einfalda verkefni að komast fram úr rúminu og taka sig til fyrir daginn er nú heilmikið verkefni sem getur tekur á þolinmæðina, þetta er versti tími dagsins,“ segir Ásdís Rán. Mjaðmagrindin er tvíbrotin, að framan og aftan, rifbein eru brotin og vinstri hendi. Þá er hún einnig illa tognuð á öxl og hálsi. Ásdís Rán lá á spítala í tvær vikur.

„Ólukkan elti mig heldur betur eitt kvöldið og ég rann til og féll töluvert langt aftur á bak niður steinstiga. Ég man ekkert eftir þessu, hvorki fallinu né því sem gerist eftir það nema þá í nokkrum óljósum brotum. Ég veit að þetta gerðist rétt um tíu um kvöld. Ég var meðvitundarlaus í einhvern tíma en ég man ég rankaði óljóst við mér og ældi. Ég fann að ég gat ekki hreyft mig og reyndi eitthvað að skríða áfram en það gekk illa og ég lá þarna í einhvern tíma með hálfri meðvitund.“



Skreið brotin upp stigann

Ásdísi tókst með ótrúlegum hætti að komast aftur upp stigann og leggjast upp í rúm. „Ég hugsaði, vertu nú ákveðin Ásdís því nú er að duga eða drepast. Þú verður að standa upp og reyna að bjarga þér. Einhvern veginn náði ég að koma mér upp stigann og upp í rúm en ég man ekki eftir því. Ég skil það ekki enn þann dag í dag því ég gat ekki staðið í fæturna. Læknirinn sagði mér að oft fengi fólk innspýtingu adrenalíns í svona aðstæðum og næði að bjarga sér á ótrúlegan hátt.“

Hún hringdi ekki á sjúkrabíl. Heldur lagðist fyrir.  „Ég veit ekki út af hverju ég hringdi ekki á sjúkrabíl. Ég er samt vön að hrista af mér sársauka og fer nú yfirleitt ekki til læknis þó ég sé nálægt því að drepast eins og þessa nótt.

Ég gleymi því ekki hvað mér leið vel í rúminu, það var allur sársauki tekinn frá mér og mér hefur aldrei liðið eins vel. Það var eins og ég væri vafin í silki, ég var á einhverjum yndislegum stað og ég vildi ekki vakna.

Nokkrum sinnum datt ég inn í raunveruleikann en datt út fljótt aftur,“ segir Ásdís sem rankaði ekki almennilega við sér fyrr en snemma um morguninn.



Slæmar fréttir

„Þá helltist allt yfir mig, ég fann ég gat ekki hreyft mig og gerði mér grein fyrir því að eitthvað hræðilegt hefði gerst, ég náði að hringja í mömmu og hún kom til mín strax og hringdi strax á sjúkrabíl.

Það gekk erfiðlega að koma mér í bílinn því það mátti ekkert hreyfa mig. Sársaukinn var ólýsanlegur en ég var samt alveg hress og ruglaði vel í þeim sem urðu á leið minni. Læknirinn sagði mér að fólk lagaðist oft ótrúlega fljótt eftir að það hefði farið í röntgenmyndatöku og komist að því að ekkert væri brotið og ég trúði því þá enn að það væri nú ekkert mjög hræðilegt sem hefði komið fyrir. Ég hefði kannski marist illa. En þegar röntgenmyndatökunni er lokið og mér rúllað út á sjúkrarúminu þá sé ég á svip systur minnar að það var ekki svo. Hún var með tárin í augunum.  Ég hugsaði með mér, hvað í andskotanum væri að henni en þá kom mamma og tilkynnti mér það að ég væri fjórbrotin jafnvel meir og það kom í ljós að mjaðmagrindin var tvíbrotin, að framan og aftan, rifbein brotin og höndin og ásamt því var ég illa tognuð á öxlinni og hálsi.“

Visir/Stefán

Lúxus á Landspítala

Ásdís Rán segir fyrstu vikuna á spítalanum í móðu, önnur vikan var virkilega erfið.

Ég var flutt á milli deilda í nokkra daga áður en ég fékk loks pláss á bæklunarskurðdeildinni, fyrsta vikan er mest í móðu ég var á sterkum verkjalyfjum dag og nótt, var með þvaglegg , hreyfði mig lítið sem ekkert og svaf bara. Vika tvö var hræðileg þá þurfti ég að byrja að hreyfa mig aðeins, standa upp og reyna að bæta mig daglega í hreyfigetu,“ segir Ásdís Rán og segir vikuna hafa reynt á sig. Þó hafi hennar beðið erfiðara verkefni því að þessum tveimur vikum loknum var hún send heim.

„Ég var svo send heim í óvissuna og átti að byrja að reyna að bjarga mér sjálf án aðstoðar og sjúkrahúsbúnaðarins sem ég hafði notast við alla daga. Fyrstu dagarnir heima voru hræðilegir en nú er ég orðin vön aðstæðum og verð betri með hverjum deginum, mamma er búin að vera svakalega dugleg að hjálpa mér og sjá til þess að ég fái smá súrefni og sól daglega, hún dröslar mér um í hjólastólnum og dregur mig út úr húsi. Einnig hafa vinkonur mínar verið duglegar að kíkja til mín, hjálpa mér heima og gera mér glaðan dag, þannig ég er alveg þokkalega heppin slösuð kona þó ég sé ein í þessu stóra verkefni.“

Ásdís Rán lofar þá aðhlynningu sem hún fékk á spítalanum. „Það var mjög fínt á spítalanum og alveg yndislegt starfsfólk og frábær þjónusta sem ég fékk að njóta á þessum hræðilega erfiðu tveimur vikum! Ég var líka rosalega hrifin af matnum á Landspítalanum í Fossvogi,“ segir hún og tekur glettilega fram að það eigi alls ekki við um matinn á Landspítalanum við Hringbraut þar sem hún dvaldi fyrstu dagana. „En þetta var allt saman bara lúxus, og ég hef samanburðinn. Ég hef dvalið á sjúkrahúsum í mörgum af þeim löndum sem ég hef búið í síðustu fimmtán ár víðsvegar um Evrópu. Ég tók reyndar eftir mikilli manneklu á bæklunarskurðdeild,“ segir Ásdís Rán frá.

 

Langt ferli fram undan

Hún segist bíta á jaxlinn. „Fyrstu vikurnar voru svakalega erfiðar, ég var á mjög sterkum verkjalyfjum allan sólarhringinn. Þetta var bara tími sem ég þurfti að reyna að lifa af og komast yfir. Ég varð bara að bíta á jaxlinn, reyna að höndla sársaukann og staðreyndina að ég væri ósjálfbjarga í öllum þessum einföldu hversdagslegu hlutum. Fæturnir farnir og aðeins hálfur efri hluti líkamans í virkni. Öll vinstri hliðin hálf lömuð því brotin eru helst vinstra megin á hendi, rifbeinum og mjöðm. Það er ósjálfrátt sem maður reynir að hrista af sér, brosa í gegnum tárin og reyna að líta út fyrir að vera hress og í lagi til að valda ekki of miklum áhyggjum hjá fjölskyldu og vinum sem líta við í heimsókn. Það var mjög fínt þegar verkjalyfin voru í hámarki, þá langaði mig stundum að stökkva upp úr rúminu og hlaupa af stað en í staðinn dröslaðist ég um eins og skjaldbaka í hjólastólnum eða göngugrindinni og reyndi að æfa mig.“



Endurhæfing er fram undan en getur ekki hafist strax vegna þess að brotin eru á erfiðum stöðum líkamans. „Ég má ekki byrja í neinu næstu vikur því miður, beinin sem brotnuðu eru svo lengi að byrja að gróa, þau byrja ekki að festa sig fyrr en eftir þrjár til fjórar vikur. Svo tekur það margar vikur í viðbót til að gróa alveg. Þá má ég fyrst byrja í sjúkraþjálfun og einhverju prógrammi,“ segir Ásdís Rán til marks um það hvað ferlið getur verið langt.

Læknarnir segja Ásdísi að endurhæfingarferlið sé persónubundið. Það geti tekið mánuði, eða ár.  „Ég var víst heppin að brotin mín féllu öll mjög vel saman og það þurfti ekki að gera neinar aðgerðir,“ segir Ásdís Rán og segir nánustu framtíð og endurhæfingu í óvissu.

„Ég veit ekki neitt og ég hef ekki hugmynd um hvernig þetta verður eða hvort ég nái mér að fullu, ég var mjög slæm fyrir í bakinu og hálsi út af tveimur hræðilegum bílslysum sem ég hef lent í þannig að ég bið bara til guðs um að þetta hafi ekki viðbótaráhrif á þau meiðsl í framtíðinni, ég vona að þetta sé bara eitthvað sem grær og lagast með tímanum smá saman.“



Óvissan erfiðust

Þótt hún sé bundin hjólastól reynir hún að njóta lífsins og mætti á landsleik Íslands og Króatíu á dögunum. „Ég er alveg farin að rölta um á hækjunum heima og stuttar vegalengdir en eins og ég tók fram þá er ég mjaðmagrindarbrotin bæði að framan og aftan og brotin rétt að byrja að gróa þannig að ég get ekki stigið í fæturna mikið, það er mjög sárt og ég þreytist strax eftir stuttan spöl á hækjunum svo bætir það ekki ástandið að vera handleggsbrotin og rifbeinsbrotin sem gerir það miklu erfiðara að nota hækjurnar,“ segir Ásdís Rán.

„Ég nota hjólastólinn þegar ég þarf að fara lengri vegalengdir, niður í bæ, á leiki eins og ég gerði um daginn. Ég finn samt mikinn mun núna, frá degi til dags. Ég get meira á hverjum degi þannig að það verður eflaust ekki langt í að ég fari að bjarga mér alveg á hækjunum og kannski að byrja að geta labbað eitthvað sjálf án þeirra.“

Óvissan er erfiðust.  „Það er allt í óvissu einhvern veginn og ég verð bara að hugsa um einn dag í einu og reyna mitt besta að komast í gegnum hann og vera sterk.

Mig langar stundum bara að liggja á gólfinu og gráta eða bara sofa allan daginn en ég veit ég má það ekki.

Ég verð bara að taka þessu eins og öðrum stórum verkefnum í mínu lífi með styrk og ákveðni. Þetta verður allt í lagi eftir smá tíma og verður vonandi fljótt að líða.“



Flutti heim vegna ólgu

Ásdís Rán fluttist til Íslands í september á síðasta ári. Henni fannst aðstæður í Búlgaríu orðnar of ótryggar. Fjölskyldan óttaðist um hana.

 „Ég ákvað að koma mér fyrir á Íslandi og reyna að finna mér eitthvað að gera hér þar sem það er mikil ólga þarna allt í kringum Búlgaríu,  Tyrkland, Rússland og fleiri lönd. Fjölskyldan var orðin frekar stressuð á að hafa okkur þarna og krakkarnir smeykir þannig við ákváðum að koma til Íslands og vera í faðmi fjölskyldunnar um óákveðinn tíma.  Ég er enn þá með íbúðina mína úti og ferðast mikið á milli þannig að þetta er bara fínt svona í bili og allir sáttir. Ég opnaði umboðsskrifstofu á netinu fyrir nokkrum vikum, hún heitir Talentbook.is og er nýjasta framtíðin á þessum markaði, þarna getur alls konar hæfileikafólk skráð sig og komið sér á framfæri sjálft með sínum prófílum, myndum og myndböndum. Þarna fer svo fólk og fyrirtæki inn og leita að sínu hæfileikafólki fyrir kvikmyndir, auglýsingar eða önnur verkefni. Mjög einfalt og þægilegt kerfi, engin umboðsgjöld og óþarfa tímaeyðsla. Það tekur auðvitað tíma fyrir fólk að meðtaka svona og venjast kerfinu en þetta kemur allt smám saman.“

Nú þegar Ásdís Rán býr á Íslandi eyðir hún frítímanum helst úti í Búlgaríu. „Já, þetta hefur snúist við. Ég fór til dæmis út um jól og páska til Búlgaríu og fór í tvær skíðaferðir þangað í vetur og eyddi þá einhverjum tíma líka heima í Sofíu með vinum. Ég fer líka þangað út ef það eru sérstök aukaverkefni eða tilefni.“

Sonur hennar Róbert Andri er orðinn tvítugur og systkinin Hektor tólf ára og Victoría tíu ára eru í sumarfríi hjá föður sínum í júnímánuði þannig að hún hefur tíma til að ná sér áður en þau koma aftur til hennar. „Þau eru orðin svo stór þessar elskur!“ segir Ásdís Rán og stefnir á að vera komin til betri heilsu þegar hún eyðir með þeim restinni af sumrinu.



Vill bæta við flugmannsréttindin

Flug hefur átt hug Ásdísar Ránar síðustu misseri. Hún er með réttindi á þrjár tegundir af þyrlum, bæði á litlar æfingavélar og farþegavélar. Hana hefur langað að sækja sér enn frekari réttindi. Það hefur þó orðið ákveðið hlé á því eftir að hún flutti til Íslands. Auðvitað setur slysið líka enn frekar strik í reikninginn.

„Því miður er lítið sem ég get gert á því sviði hér á Íslandi, það eru engar litlar æfingavélar í boði hér til að fljúga þannig að ég verð að fara til útlanda til að safna tímum og það er töluverður kostnaður við það plús kostnaðurinn við flugtímana sjálfa en vonandi koma fleiri vélar til landsins í framtíðinni þannig að það sé hægt að þróa betur þyrluflugmanna markaðinn hérna. Annars er ég er alveg til í að fjárfesta í einni Robinson 22 ef ég fæ nokkra aðra með mér, þannig að ef það er einhver þarna úti sem hefur áhuga á þessu þá bara endilega setja sig í samband við mig, þessi fjárfesting kemur betur út en að kaupa 200 flugtíma erlendis til að klára námið. Ég er ekki búin með atvinnuflugmannsréttindi en ætla að taka prófið við tækifæri þegar ég hef tíma fyrir ár erlendis í bóklegu námi, ég er langt komin í flugtímunum og á ekki marga eftir til að klára commercial pilot gráðuna.“

Hún segir langflest áhugamál sín fela í sér mikla hreyfingu og krefjast orku. „Ég hef rosalega gaman af allri útivist, flugi, ég hef gaman af því að fara í skotgallerý í Búlgaríu, elska skíði, mikið fyrir alls konar líkamsrækt, alla hönnun og hef unnið að hinum ýmsu verkefnum allt frá innanhússhönnun, fatahönnun, skartgripahönnun upp í förðun og þróun á snyrtivörulínum. Ég hef mjög gaman af ljósmyndun, stíliseringu, er lærð í hárgreiðslu og förðun og er sérfræðingur í flestu á þessum sviðum fegrunar. Þetta eru allt áhugamál og oftar en ekki vinn ég við margt af þessu líka.“



 

Villiköttur og Ísdrottning

Hún segir fyrirsætubransann hafa breyst mikið og til batnaðar. „Nú eru miklu fleiri týpur í gangi og minna um reglur t.d eru módelin af alls konar stærðum, gerðum og aldurinn hefur hækkað mikið, nú geturðu alveg verið að módelast til fimmtugs og jafnvel lengur ef þú heldur þér vel og ert virk í þessum bransa.“

En hún sjálf, hefur hún breyst?

„Ég held að ég hafi nú ekki breyst mikið, ég er bara alltaf sama Ísdrottningin og smá villiköttur í mér. En maður þroskast auðvitað alltaf og vex með lífinu og reynslunni. Ég er svo heppin hafa fengið að upplifa mikið á minni stuttu ævi. Ég hef búið í sex löndum, kynnst og upplifað ólíka menningu víðsvegar um heiminn og ferðast ótrúlega mikið, nú er ég orðin aðeins rólegri og farin að njóta mómentsins aðeins meira.“

Ég nota hjólastólinn þegar ég þarf að fara lengri vegalengdir, niður í bæ, á leiki eins og ég gerði um daginn, segir Ásdís Rán.Vísir/Stefán

Búin með sín níu líf

Ásdís Rán hefur oftar lent í alvarlegum slysum og hættulegum aðstæðum. „Ég er nú búin að lenda ansi oft í hættulegum aðstæðum sem ég hef rétt sloppið úr á lífi og þeir sem þekkja mig segja að ég sé eins og kettirnir og sé með níu líf, ég hins vegar er nokkuð viss um að þessi níu líf eru búin núna þannig að ég þarf að fara að passa mig betur! En annars hef ég lent í fjórum lífshættulegum slysum og einhverjum fleiri minni sem ég hef sloppið vel frá, þannig að ég er algjör hrakfallabálkur!

Ég slasaðist mest núna, hins vegar var ég eflaust heppnari að hafa lifað hin slysin af,“ segir Ásdís Rán en þegar hún var fimmtán ára var keyrt á hana á fullum hraða.  Þá lenti hún í alvarlegu bílslysi árið 2007 sem hún slapp ótrúlega vel frá.

„Ég var svo heppin að í staðinn fyrir að lenda undir bílnum þá hentist ég í lofköstum yfir á umferðareyju hinum megin sem var með grasi á þannig ég slapp lifandi. Árið 2007 lenti ég svo í mjög slæmu bílslysi þar sem var keyrt á fullum hraða inn í bílinn, bílstjóramegin, þar sem ég sat, bílarnir eyðilögðust og ég slasaðist töluvert og missti minnið í smá tíma en slapp ótrúlega vel frá þessu. Um 2008 lenti ég svo aftur í lífsháska þegar ég varð mjög veik og uppgötvaðist á síðustu stundu að ég var með miklar innvortis blæðingar og hafði blætt inn á líffæri mín út frá blöðru á öðrum eggjastokknum sem hafði sprungið. Það náðist rétt svo að bjarga mér með bráðaskurðaðgerð á sjúkrahúsi í Búlgaríu. Svo ég hef prófað ýmislegt í gegnum tíðina.“

Engar hindranir

Hún segist afar þakklát því góða og ævintýralega lífi sem hún hefur fengið að lifa. Háskinn setur hlutina í samhengi og skerpir á því sem er mikilvægt. „Fjölskyldan, ástin, hamingjan og skemmtileg móment gefa lífinu gildi án efa, það besta sem hefur komið fyrir mig er að hafa gengið með og eignast þessi frábæru kláru og yndislegu börn sem ég á og að hafa fengið tækifæri til að búa erlendis og upplifa heiminn og lifa þessu ævintýralega lífi sem ég hef lifað síðustu fimmtán ár.“

Hún segir það nokkurs konar lífsreglu hjá sér að hvetja fólk til þess að elta drauma sína meðan það getur og hefur heilsu til. „Ekki gefast upp þó á móti blási og allt virðist vonlaust. Það gefur mér tilgang í lífinu að geta veitt fólki innblástur og hvetja fólk til að hafa trú á  sér. Það gleður mig að fólk geti horft á mig og sagt vá hún gat þetta þá hlýt ég að geta þetta og að ég geti sýnt að það eru engar hindranir í lífinu nema þú sjálfur – það er allt hægt ef viljinn er fyrir hendi!“



Makeup/Hár frá TalentBook.is

Makeup: Selma Rut/Blanco Hárgreiðslustofa

Hár/lengingar: Lucy Anna/Glamúr Hárgreiðslustofa





Fleiri fréttir

Sjá meira


×