Innlent

Húsfyllir hjá Framfarafélaginu

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Sigmundur Davíð í pontu.
Sigmundur Davíð í pontu. Jói K
Húsfyllir er nú á stofnfundi Framfarafélags Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, fyrrverandi forsætisráðherra og formanns Framsóknarflokksins, sem fram fer í Rúgbrauðgerðinni í Reykjavík. Að sögn fréttamanns á svæðinu má ætla að fundargestir séu á annað hundrað.

Sigmundur kynnti félagið til leiks í vikunni sem hann segir að sé stofnað til að „skapa öflugan vettvang fyrir frjálsa umræðu, fræðslu og framsetningu hugmynda og lausna.“

Sjá einnig: Segist ekki vera að máta sig í borgarstjórastólinn

Framfarafélagið er stofnað í kjölfar nýliðins miðstjórnarfundar Framsóknarflokksins þar sem meðal annars var ákveðið að flýta flokksþingi um hálft ár - ekki síst svo hin umdeilda forysta flokksins geti endurnýjað umboð sitt.

Að minnsta kosti einn núverandi þingmaður Framsóknarflokksins er á staðnum, Gunnar Bragi Sveinsson og þá mátti einnig sjá fyrrverandi þingmennina Vigdísi Hauksdóttur og Þorstein Sæmundsson á fundinum.

Jói K
Lilja Alfreðsdóttir, sem orðuð hefur verið við formennsku í Framsókn, var hins vegar ekki sjáanleg þar sem hún er nú stödd í Tbilisi í Georgíu á vorþingi NATO-þingmanna.

Meðal annarra gesta eru Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, Gústaf Níelsson, einn fyrrverandi oddviti Íslensku þjóðfylkingarinnar í Reykjavík og Sigurður Ragnarsson, einnig þekktur sem Siggi Stormur, sem kom að stofnun flokksins Samstöðu.

Aðspurður hvort félagið sé fyrsti vísir að „Framfaraflokknum“ sagði Sigmundur í samtali við Reykjavík Síðdegis að félagið sé ekki stofnað sem stjórnmálaflokkur. Þá sagði hann Framsóknarmenn vinna að stofnun félagsins en það væri ekki flokkspólitískt. Fyrst og fremst væri Framfarafélagið vettvangur fyrir lýðræðislega umræðu og hugmyndir. 

Nánar var rætt við Sigmund Davíð í hádegisfréttum Bylgjunnar.

Gunnar Bragi lét sig ekki vanta.Jói k
Inga Sæland var þar sömuleiðisJói K
Og Vigdís Hauksdóttir



Fleiri fréttir

Sjá meira


×