Innlent

Aðgerðir lögreglu í nauðgunarmáli: Hlerun nauðsynleg til að upplýsa alvarlegt brot

Snærós Sindradóttir skrifar
Árni Þór Sigmundsson, yfirmaður kynferðisbrotadeildar.
Árni Þór Sigmundsson, yfirmaður kynferðisbrotadeildar. vísir/eyþór
Yfirmaður kynferðisbrotadeildar segir að ástæða þess að ráðist sé í umfangsmiklar lögregluaðgerðir sem beinast að þolanda í kynferðisbrotamáli, sé sú trú lögreglu að um alvarlegt brot sé að ræða sem beri að upplýsa.

Fréttablaðið greindi frá því í gær að þolandi í nauðgunarmáli upplifði sig sem glæpamann eftir samskipti við lögreglu en lögregla heldur áfram að rannsaka ætlaða nauðgun gegn vilja konunnar. Konan var hleruð á meðan á rannsókn stóð og þá lagði lögregla hald á tölvu í eigu sonar hennar og síma á heimilinu.

Konan leitaði á Neyðarmóttöku fyrir þolendur nauðgana eftir kynni sín af manni þann 10. desember síðastliðinn. Þá voru myndaðir miklir áverkar á konunni og tekin af henni skýrsla. Nokkrum dögum síðar dró konan framburð sinn til baka og bar við að menn vopnaðir skotvopnum hefðu mætt heim til hennar vegna málsins.

Maðurinn sem grunaður er um að nauðga konunni hefur áður hlotið dóm fyrir nauðgun og var gert að sitja eftirstöðvar dóms síns, samtals 630 daga, en maðurinn var á reynslulausn þegar atvikið átti sér stað.

Nokkur vitni voru samtímis leidd til yfirheyrslu á þriðjudag svo þau hefðu ekki tækifæri til að samræma framburð sinn.vísir/anton brink
„Það er alltaf hægt að teygja það í allar áttir hvort [aðgerðirnar] eru miklar eða ekki. Við erum að rannsaka mjög alvarlegt brot sem við lítum alvarlegum augum og notum þau úrræði sem við þurfum til þess að upplýsa þannig mál,“ segir Árni Þór Sigmundsson, yfirmaður kynferðisbrotadeildar lögreglunnar.

„Allt það sem við gerum í þágu rannsóknar eru úrræði sem eru studd dómsákvörðun,“ tekur Árni fram varðandi þá fordæmalausu ákvörðun að hlera þolandann í málinu. Konunni var greint frá hleruninni á þriðjudag en hún stóð yfir í um það bil einn mánuð, frá miðjum desember og fram í miðjan janúar. Konan var eitt nokkurra vitna sem leidd voru til yfirheyrslu samtímis á þriðjudag, aðgerð sem var ráðist í svo vitnin gætu ekki samræmt framburð sinn í málinu.

Konan hefur neitað að tjá sig frekar við lögreglu um málið. Fréttablaðið hefur heimildir fyrir því að í yfirheyrslum hafi hún sagt atvikið hafa átt sér stað með hennar vilja.

„Við rannsökum málin í samræmi við þau gögn sem liggja fyrir hverju sinni. Ef við höfum gögn til að styðjast við þá förum við eins langt og við getum í öllum málum. Rannsókn í þessu máli miðar vel. Við erum að rannsaka mjög alvarlegt brot og gerum það sem við getum til að upplýsa hvað átti sér þarna stað í samræmi við þau gögn sem við höfum,“ segir Árni. 


Tengdar fréttir

Lögregla hleraði síma brotaþola í nauðgunarmáli

Kona sem hefur stöðu brotaþola í nauðgunarmáli segist upplifa sig sem glæpamann vegna þess að hún neitar að tjá sig við lögreglu um málið. Lögreglan hefur haldlagt tölvu og síma í hennar eigu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×