Innlent

Biskup: Undarlegt að þráspyrja börn hvort þau fermist gjafanna vegna

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands.
Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands. Vísir/Vilhelm
„Það er undarleg sú framganga sem birst hefur í fjölmiðlum og á ljósvakamiðlum að gera lítið úr börnunum og ákvörðun þeirra að vilja staðfesta skírn sína. Þau eru jafnvel þráspurð hvort þau séu að fermast vegna gjafanna,“ sagði Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, í hátíðarmessu í Dómkirkjunni í morgun.

Agnes velti því fyrir sér hvort það mætti þá ekki allt eins spyrja afmælisbörn hvort þau haldi afmæli gjafanna vegna, eða brúðhjón hvort þau gifti sig vegna gjafanna.

„Kirkjunnar þjónar vinna með fermingarbörnunum í anda upprisunnar. Að þau feti hamingjuveginn og finni tilgang með lífi sínu. Fermingarbörnin fá misvísandi skilaboð þegar kirkjan vill styðja þau til að byggja líf sitt á traustum grunni en aðrir gera lítið úr og sá efa í hjörtun ungu,“ sagði hún.

Þá sagði Agnes að stofnanir þjóðfélagsins þurfi að endurheimta það traust sem glataðist í efnahagshruninu. Hún sagði þjóðina hafa orðið fyrir miklu áfalli og að hún hafi þurft að ganga í gegnum sorgarferli með tilheyrandi dofa, reiði og svo uppbyggingu. Hins vegar hafi þjóðinni ekki tekist að finna traustið aftur.

„ Það er stundum haft á orði að við getum bara breytt sjálfum okkur en ekki öðrum. Að ef við viljum breyta þá verðum við að byrja á sjálfum okkur. Stofnanir þjóðfélagsins verða að sýna að þær séu traustsins verðar. Það á við um allar stofnanir, fjármálastofnanir, heilbrigðisstofnanir, ríkisstofnanir, kirkjurnar og aðrar þær stofnanir sem þjóna fólkinu í landinu. Fjölmiðlarnir eru þar ekki undanskildir.“

Lesa má predikun Agnesar í heild hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×