Innlent

Blindur vann bæði stórmótin í skák

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Paulus Napatog tekur við verðlaunum frá Joey Chan úr Hróknum.
Paulus Napatog tekur við verðlaunum frá Joey Chan úr Hróknum. mynd/hrókurinnn
Paulus Napatog, blindur grænlenskur piltur, hefur farið á kostum á skákhátíð Hróksins og Kalak í liðinni viku en hann vann bæði stórmót hátíðarinnar. Hátíðin, sem er haldin í Ittoqqortoormiit í Grænlandi, hófst á miðvikudag og lýkur á morgun með Degi vináttu Íslands og Grænlands.

Paulus varð í gær efstur fjörutíu keppenda á Norlandair-meistaramóti bæjarins. Hann sigraði í öllum skákum sínum og tryggði sér meistaratitilinn 2017. Degi áður, eða á föstudaginn, vann Paulus Bónus-mótið svonefnda eftir æsispennandi útslitaskák.

Börnin skemmtu sér konunglega á mótinu.mynd/hrókurinn
Hann var 15 ára þegar hann lærði að tefla í fyrstu heimsókn Hróksliða til Ittoqqortoormiit ári 2007 og náði á örskömmum tíma undraverðum árangri. Paulus hefur tvisvar komið til Íslands að tefla, m.a. á Skákhátíð í Árneshreppi.

Ittoqqortoormiit er afskekktasta þorp Grænlands. Það er við Scoresby-sund á 70.breiddargráðu, tæplega þúsund kílómetra frá næsta byggða bóli, og eru íbúar á fimmta hundrað. Þetta er ellefta árið í röð sem Hróksliðar standa fyrir hátíð í bænum, en þeir fullyrða að hvert mannsbarn í bænum kunni nú að tefla.

Hátíðin hófst á miðvikudag með heimsóknum Hróksliða í leikskólann og elliheimilið í bænum með gjafir frá prjónahópum Gerðubergs og Rauða krossins í Reykjavík. Leiðangursmenn Hróksins eru Róbert Lagerman, Máni Hrafnsson og Joey Chan. Páskahátíðin í Ittoqqortoormiit er 2. verkefni Hróksins á Grænlandi 2017. Í febrúar hélt Hrókurinn Polar Pelagic-hátíðina í Kulusuk og Tasiilaq, nú í maí verður skákhátíð í Nuuk og fleiri hátíðir eru á teikniborðinu.

Börnin í leikskólanum fengu prjónaflíkur og páskaegg í heimsókn Hróksliða.mynd/hrókurinn



Fleiri fréttir

Sjá meira


×