Nathan Dyer, leikmaður Swansea og liðsfélagi Gylfa Þórs Sigurðssonar, verður ekki meira með á leiktíðinni vegna meiðsla og getur því ekki hjálpað velska liðinu frekar í fallbaráttunni.
Dyer sleit hásin í 2-0 sigurleik Swansea gegn Englandsmeisturum Leicester í gær en þar sneri hann aftur í byrjunarliðið gegn sínum fyrrverandi liðsfélögum. Dyer var á láni hjá Leicester á síðustu leiktíð þegar liðið varð Englandsmeistari.
Kantmaðurinn 29 ára gamli entist aðeins í sjö mínútur áður en hann þurfti að fara af velli og er nú komið í ljós að hann sleit hásin.
Dyer hefur aðeins spilað tíu leiki fyrir Swansea á þessari leiktíð en helmingur þeirra hefur verið undir stjórn Pauls Clements eftir að hann tók við í byrjun árs.
Dyer kom fyrst til Swansea árið 2009 frá Southampton en hann skrifaði undir nýjan fjögurra ára samning síðasta sumar. Hann hjálpaði liðinu að komast upp í úrvalsdeildina og vann deildarbikarinn með liðinu árið 2013.
