Innlent

Verðmæti úr 4.000 tonnum af roði unnin með grænni orku

Svavar Hávarðsson skrifar
Tómas Þór Eiríksson, framkvæmdastjóri Codlands.
Tómas Þór Eiríksson, framkvæmdastjóri Codlands.
Frumkvöðlafyrirtækið Codland ehf. og fjögur af stærstu útgerðarfyrirtækjum landsins munu byggja og reka verksmiðju á Reykjanesi sem nýtir hráefni frá sjávarútvegi sem annars nýtist illa eða ekki hérlendis. Viljayfirlýsing liggur fyrir um svokallað Heilsuvöruhús á Reykjanesi þar sem þróun og framleiðsla fer fram. Heildarkostnaður verkefnisins er áætlaður um einn milljarður íslenskra króna.

Í fyrstu er reiknað með að aðalframleiðsluvara Heilsuvöruhúss verði kollagen-prótein unnið úr fiskroði. Afurðin verður meðal annars notuð í heilsufæði, fæðubótarefni, snyrtivörur og lyf. Nýtt verður orka frá Reykjanesvirkjun enda verður verksmiðjan sett upp í næsta nágrenni við virkjunina, ef áætlanir ganga eftir.

Heilsuvöruhús er í eigu HB Granda, Samherja og fyrirtækjanna Vísis og Þorbjarnar í Grindavík sem eiga Codland. Áætlað er að Heilsuvöruhúsið taki til starfa í byrjun árs 2018, en fyrsta skóflustungan verði tekin á vormánuðum.

Með þátttöku fjögurra öflugra sjávarútvegsfyrirtækja er hráefnisöflun Heilsuvöruhússins tryggð, segir Tómas Þór Eiríksson, framkvæmdastjóri Codlands. „Við munum vinna úr fjögur þúsund tonnum af fiskroði á ári sem gefur okkur 400 tonn af kollageni. Slíkt magn nýtist ekki innanlands og mikið er því ætlað til útflutnings, en möguleikar til nýtingar hér innanlands eru fjölþættir í framtíðinni.“

Eins og Fréttablaðið greindi frá á sínum tíma voru fyrstu skref þessa verkefnis tekin árið 2012 í samstarfi Íslenska sjávarklasans og Collagen ehf., sem hóf þá samstarf við fyrirtæki á Spáni við að vinna kollagen úr fiskroði. Þá strax var stefnt á að reisa verksmiðju á Reykjanesi á vegum Codlands, svo Heilsuvöruhús er í raun lyktir þess samstarfsverkefnis Sjávarklasans og Collagen.

Heilsuvöruhús krefst ekki margra starfsmanna, heldur skapast hátæknistörf og þróun fullvinnslu í sjávarútvegi á Íslandi tekur stórt skref um leið. Hröð þróun hefur orðið í framleiðsluaðferðum kollagens á síðustu árum og eftirspurn eftir vistvænum afurðum á þessu sviði hefur aukist jafnt og þétt um allan heim. 

„Þau fyrirtæki sem sameinast um þetta telja að hægt sé að samnýta þá sérþekkingu sem þarna er til staðar og skapa verðmæti sem skila aðgangi að nýjum mörkuðum,“ segir Tómas Þór. „Við erum mjög spennt fyrir að þróa okkar eigin vörur, eins og drykkinn okkar Alda Iceland. Við gerðum auk þess samstarfssamning við Mjólkursamsöluna um að kanna hvernig kollagen blandast við mysupróteinið þeirra.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.