Innlent

Maður tekinn með stuðbyssu á öldurhúsi á erilsamri nóttu lögreglu

Kjartan Kjartansson skrifar
Rafbyssur skjóta rafskautum sem stuða fólk. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki.
Rafbyssur skjóta rafskautum sem stuða fólk. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki. Vísir/AFP
Svo mikill erill var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt að taka þurfti í notkun fangageymslur í lögreglustöðinni í Hafnarfirði til að koma öllum þeim sem voru handteknir fyrir. Á meðal þeirra sem var handtekinn var maður sem var tekinn á vínveitingastað með rafstuðbyssu.

Í dagbók lögreglunnar eftir nóttina kemur fram að allar fangageymslur hafi verið fullar og rúmlega það. Það heyri til undantekninga að opna þurfi fangageymslurnar í Hafnarfirði. Engin alvarleg mál komu þó upp og flest málin tengdust neyslu áfengis og vímuefna.

Starfsmaður í verslun í miðbænum tilkynnti um manninn með stuðbyssuna eftir að hann sá hann meðhöndlana hana inni í versluninni, samkvæmt upplýsingum lögreglunnar. Maðurinn er þó ekki sagður hafa notað hana til að hóta neinum beint. 

Þegar lögregla kom á vettvang var maðurinn farinn en lögreglumenn leituðu í nágrenninu. Fundu þeir manninn inni á bar þar sem lögreglan segir að ógæfumenn venji komur sínar. Rafstuðbyssan fannst á honum og einnig smáræði af fíkniefnum. 

Hann var handtekinn og vistaður í fangaklefa en hann þótti ekki skýrsluhæfur þar sem hann var undir áhrifum vímuefna. Maðurinn verður kærður fyrir brot á vopnalögum og fyrir vörslu fíkniefna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×