Kastljósið hefur m.a. beinst að landsliðsþjálfaranum Lars Lagerbäck, knattspyrnuhúsunum sem fóru að rísa upp úr síðustu aldamótum og yngri flokka starfinu hér á landi.
Scott Murray fer aðra leið í grein sem birtist á vef the Guardian í dag en þar fjallar hann um áhrif Bjarna Felixsonar á íslenskan fótbolta.
Bjarni var sigursæll leikmaður með KR áður en hann hóf störf sem íþróttafréttamaður á RÚV þar sem hann átti stærstan þátt í koma enska boltanum inn í stofur landsmanna.

„Bjarni Fel er goðsögn í lifandi lífi,“ hefur Murray eftir sagnfræðingnum og fótboltaáhugamanninum Stefáni Pálssyni.
„Hann er vel liðinn og virtur. Íþróttaþátturinn hans var á dagskrá á hverjum laugardegi. Við ólumst öll upp með Bjarna.“
Í greininni ræðir Murray við Bjarna sem segir m.a. frá því hvernig hann fór að því að fylgjast með enska boltanum á sínum yngri árum.
„Við höfðum takmarkaða möguleika á að fylgjast með erlendum fréttum. Við gátum hlustað á BBC World Service á stuttbylgju. Svo komu sunnudagsblöðin til Reykjavíkur og voru seld í bókabúðum á þriðjudögum. Þar gátum við lesið um leikina,“ segir Bjarni og bætir við:
„Þetta var fámennur hópur furðufugla sem fylgdust með enska boltanum í þá daga. En það breyttist allt þegar Ríkissjónvarpið kom til sögunnar.“

„Íslenskir fótboltamenn lærðu mikið af enska boltanum,“ segir Bjarni. „Krakkarnir stefndu að því að vera eins leikmennirnir sem þeir sáu í sjónvarpinu.“
Í greininni ræðir Bjarni einnig um Evrópuleiki KR og Liverpool 1964 og sportbarinn í miðbæ Reykjavíkur sem er nefndur í höfuðið á honum.
Greinina má lesa með því að smella hér.