Fótbolti

Þjálfari sýndi leikmönnum klámmynd í hálfleik

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Hvort spólan hafi verið úr einkasafni kemur ekki fram.
Hvort spólan hafi verið úr einkasafni kemur ekki fram. vísir/getty
Spænski fótboltaþjálfarinn Joaquin Caparrós fór nýjar leiðir til að hvetja sína menn í Mallorca áfram þegar hann þjálfaði liðið í spænsku 1. deildinni frá 2011-2013.

Þjálfarar beita ýmsum aðferðum til að kveikja bál í leikmönnum sínum og fá það besta út úr þeim, en Caparrós bryddaði í einum leik árið 2012 upp á nýjung sem líklega var bara notuð í þetta eina skipti.

Brasilíumaðurinn Anderson Conceicao, leikmaður Philadelphia Union í MLS-deildinni í Bandaríkjunum, segir frá því í viðtali við Eurosport að Caparrós sýndi leikmönnum Mallorca einu sinni klámmynd í hálfleik.

Conceicao var leikmaður Mallorca þegar Caparrós var að þjálfa þar, en undir lok tímabilsins 2012 var Mallorca-liðið í mikilli fallbaráttu og þjálfarinn að berjast fyrir starfi sínu.

Mallorca var 1-0 undir í hálfleik í mikilvægum leik seinni hluta tímabilsins 2012 og þá skellti Caparrós klámmynd í tækið.

„Herra Joaquin Caparrós byrjaði að sýna okkur myndband í miðri hálfleiksræðunni og okkur til mikillar furðu var að klámmynd. Við vorum alveg gáttaðir á því sem við sáum,“ segir Conceicao.

„Hann sagði: „Taugar ykkar eiga að vera eins og hjá þessum leikara.“ Þetta var held ég einhver amerísk klámmynd en sýningin stóð bara yfir í 30 sekúndur. Þetta var samt eitthvað sem maður gleymir aldrei,“ segir Anderson Conceicao.

Því miður fyrir Caparrós og lærisveina hans dugði ekki að sýna þeim klámmynd í hálfleik því liðinu tókst ekki að skora mark í seinni hálfleiknum og tapaði, 1-0.

Joaquín Caparrós þjálfaði síðast Granada á síðustu leiktíð en hefur verið atvinnulaus undanfarið ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×