Innlent

Kópavogur með hinsegin fræðslu í aðalnámskrá

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Hinsegin dagar, sem fara fram árlega, hafa orðið til þess að vekja athygli á réttindum fólks, ekki síst samkynhneigðra.
Hinsegin dagar, sem fara fram árlega, hafa orðið til þess að vekja athygli á réttindum fólks, ekki síst samkynhneigðra. vísir/vilhelm
Starfsfólk grunnskóla í Kópavogi fær sérstaka fræðslu næsta vetur um málefni hinsegin fólks. Bæjarráð samþykkti tillögu þessa efnis í síðustu viku.

„Í fræðslunni verði lögð áhersla á hvað felst í því að vera hinsegin manneskja, hinsegin hugtök, helstu baráttumál hinsegin fólks og hvernig hver og einn geti lagt sitt af mörkum til að auka skilning á málefnum hinsegin fólks í samfélaginu,“ segir í tillögunni sem samþykkt var.

„Starfsfólkið þarf að vera meðvitað um áhrif eigin orðræðu. Auk þess hjálpar slík fræðsla starfsfólki að ræða þessi málefni við nemendur, hafa þekkingu á hvernig bregðast skuli við og geta rætt um málefnið af þekkingu og virðingu.“

Þá var samþykkt að gerð verði áætlun um hinsegin fræðslu í aðalnámskrá grunnskóla Kópavogs. Í námskránni þurfi „að koma skýrt fram að skólinn sinni þeirri skyldu sinni að í allra umræðu og kennslu sé tekið tillit til fjölbreytileika,“ eins og segir í tillögunni. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 13. maí




Fleiri fréttir

Sjá meira


×