Um er að ræða stórhýsi sem Sigurður lét byggja fyrir hrun. Það er um 840 fermetrar að stærð, með fimmtíu fermetra vínkjallara og tvöföldum bílskúr, svo fátt eitt sé nefnt.
Í myndbandi sem fólkið birti á netinu í vikunni má heyra Sigurð hóta því barsmíðum, yfirgefi það ekki svæðið. Sigurður sagði fólkið í óleyfi og kom til orðaskak á milli þeirra, samkvæmt myndbandinu.

„Fólkið var þarna að mynda inn um rúðurnar og þetta er auðvitað bara innrás á friðhelgi einkalífsins. Þarna er allt girt af og svæðið er læst með hliði, þannig að fólkið hefur farið yfir hliðið og inn á þessa einkaeign,“ segir Freyr í samtali við Vísi.
Sigurður var í febrúar í fyrra dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir aðild sína að Al-Thani málinu svokallaða. Hann var fyrr í þessum mánuði látinn laus úr fangelsi og dvelur nú á Vernd, áfangaheimili í Reykjavík, þar sem hann verður þar til hann fer heim og verður undir rafrænu eftirliti.
Freyr segir Sigurð hafa eftirlit með húsinu. Það sé í eigu vinar hans sem búsettur sé erlendis. „Hann er auðvitað inni á Vernd en þarna hafði hann bara tekið sunnudagsrúnt að bústaðnum, til að kanna stöðuna á eigninni fyrir eiganda hennar.“
Orðrétt segir Sigurður í myndbandinu: „Farðu svo ég þurfi ekki að berja þig.“ –Freyr segir enga hótun hafa verið fólgna í orðum Sigurðar, hann hafi einungis verið að verja sig frá ágangi fólksins.
„Eins og sést í myndbandinu er hann allur hinn rólegasti þó hann muldri þessa setningu. Hann hefur enga ógnandi tilburði þó þessi orð hafi auðvitað verið óheppileg, en hann lítur á þetta sem innbrot,“ segir Freyr og bætir við að fólkið hafi sýnt mjög ögrandi hegðun.
Einkahlutafélagið Veiðilækur var stofnað utan um framkvæmdir Sigurðar í Borgarfirði, en árið 2011 var nafninu breytt og skipt um eigendur. Félagið heitir nú Rhea en ekki liggur fyrir hverjir nýju eigendurnir eru. Freyr segir húsið ekki í eigu Sigurðar.
Uppfært klukkan 19:29
Myndbandið hefur verið fjarlægt af YouTube. Að neðan má sjá uppskrifuð samskipti vegfarandans við Sigurð.
Vegfarandi: Hvað heitirðu?
Sigurður: Farðu svo ég þurfi ekki að berja þig
Vegfarandi: Hvað heitirðu?
Sigurður: Farðu svo ég þurfi ekki að berja þig.
Vegfarandi: Ha?
Sigurður: Farðu.
Vegfarandi: Svo þú þurfir ekki að berja mig?